149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

440. mál
[16:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006, með síðari breytingum. Í þessu frumvarpi eru nokkur meginatriði, en forsaga málsins er sú að í febrúar á þessu ári skipaði ég nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi, auk fulltrúa Ríkisendurskoðunar, forsætisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis, með það að markmiði að endurskoða lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda um upplýsingaskyldu þeirra. Auk almennrar endurskoðunar á lögunum frá 2006 var nefndinni falið að skoða leiðir til að takast á við nafnlausan kosningaáróður og auglýsingar og yfirfara athugasemdir ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, í úttektarskýrslu stofnunarinnar frá 2. mars 2018 um alþingiskosningarnar í október 2017. Fljótlega eftir að nefndin kom fyrst saman var tekin ákvörðun um að skipta viðfangsefnum hennar upp í tvo áfanga, fjalla fyrst um þær nauðsynlegu breytingar sem gera þyrfti á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006, en um nafnlausan kosningaáróður á síðari stigum vinnunnar. Afrakstur nefndarinnar að því er varðar fyrri hluta verkefnisins birtist í þessu frumvarpi.

Í frumvarpinu er einnig að finna ákvæði sem snýr að hugsanlegum nafnlausum kosningaáróðri að undirlagi stjórnmálasamtaka, kjörinna fulltrúa þeirra og frambjóðenda, sem og frambjóðendur í persónukjöri. Eins og vikið er að í skýringum, en um þetta er fjallað í 11. og 12. gr. frumvarpsins, tekur umrætt ákvæði þó aðeins á hluta af þeim margbrotna vanda sem við er að etja. Aðrir þættir vandans munu koma til skoðunar í áframhaldandi vinnu nefndarinnar og annarri umbótavinnu á vegum Alþingis og stjórnvalda.

Aðdraganda að skipun nefndarinnar má rekja til yfirlýsingar frá formönnum sex stjórnmálasamtaka til fjárlaganefndar fyrir tæpu ári, 21. desember 2017, þar sem þess var m.a. farið á leit að forsætisráðherra setti af stað vinnu við endurskoðun laganna með þátttöku fulltrúa allra stjórnmálasamtaka sem sæti eiga á Alþingi.

Í vinnu nefndarinnar var löggjöf á Norðurlöndum, Bretlandi, Frakklandi og á Írlandi, svo og í Eystrasaltsríkjunum, skoðuð og höfð til hliðsjónar. Þar var helst litið til reglna um opinbera styrki og skilyrði fyrir úthlutun þeirra, hvernig regluverki um frjáls framlög er háttað og hvaða reglur gilda um birtingu upplýsinga, svo fátt eitt sé nefnt.

Þetta nýja frumvarp tryggir starfsskilyrði og sjálfstæði stjórnmálasamtaka, eykur gagnsæi og styrkir lýðræði. Með því eru lagðar auknar skyldur á flokkana um upplýsingagjöf til almennings og til Ríkisendurskoðunar um hvernig fjármunum flokkanna er varið. Fullnægjandi upplýsingar stjórnmálaflokka til Ríkisendurskoðunar verða skilyrði fyrir úthlutun fjár úr ríkissjóði. Gert er ráð fyrir því að almenningur fái aðgang að öllum upplýsingum um fjármál flokka sem máli skipta í ársreikningi sem birtur verður opinberlega. Það er í fyrsta sinn því hingað til hefur einungis þurft að birta útdrátt úr ársreikningi. Uppgjör kostnaðar vegna Alþingis og sveitarstjórnarkosninga verður líka birt sérstaklega og sundurliðað samkvæmt forskrift Ríkisendurskoðunar.

Í frumvarpinu er kveðið á um að stjórnmálasamtökum, kjörnum fulltrúum og frambjóðendum verði óheimilt að fjármagna, birta eða taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga í tengslum við stjórnmálabaráttu án þess að nöfn þeirra komi fram. Eins og ég nefndi áðan má segja að þetta sé einungis fyrsta skrefið í lengri vegferð í baráttu stjórnmálaflokkanna gegn hatursáróðri, nafnlausu níði, rógi og árásum í pólitískri baráttu, en þetta er mikilvægt skref og sýnir eindreginn vilja allra stjórnmálaflokka á Alþingi til þess að hafna slíkum aðferðum.

Í frumvarpinu er enn fremur kveðið á um að birta nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi, án hámarks eða lágmarks í upphæð, sem og allra einstaklinga sem veitt hafa framlög hærri en 300.000 kr. Stjórnmálasamtök mega taka við framlögum frá lögaðilum og einstaklingum allt að 550.000 kr. á ári, en þær fjárhæðir sem gefnar eru upp í frumvarpinu miðast við verðlagsuppfærslu frá því að þessar fjárhæðir voru síðast birtar í lögum.

Það er líka ákveðið nýmæli í því hvernig greiðslum kosningastyrkja úr ríkissjóði verður háttað. Greiðsla verður háð því skilyrði að stjórnmálasamtök bjóði fram í a.m.k. þremur kjördæmum eða fleiri og hægt verður að sækja um styrk að hámarki 750.000 kr. fyrir hvert kjördæmi sem boðið er fram í á kosningaári.

Þá eru lagðar til breytingar á fjárframlögum til stjórnmálaflokka og grunnrekstrarframlag til flokka á Alþingi tryggt óháð stærð, en hingað til hafa framlögin verið hlutfallsleg miðað við stærð stjórnmálaflokka á Alþingi. Hér er lagt til grunnframlag, 12 milljónir, fyrir hvern flokk sem á kjörinn mann á Alþingi. Með því skapast ákveðið rekstraröryggi sem gerir flokkunum mögulegt að hafa fólk í starfi til þess að sinna lögbundnum skyldum um bókhald, persónuvernd, upplýsingamiðlun, vörslu gagna og endurskoðun. Á þessu hefur verið misbrestur og oft hafa smærri flokkar verið nánast óstarfhæfir að loknum kosningum þar sem þeir hafa tapað fylgi og átt erfitt með að sinna þessum grunnskyldum.

Lagt er til að Sambandi íslenskra sveitarfélaga verði skylt að setja viðmiðunarreglur um greiðslu framlaga til flokka en ekki að það sé einungis heimilt eins og í núgildandi lögum. Þessar tillögur hafa verið kynntar stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og ljóst er að sveitarfélögin telja þetta íþyngjandi ákvæði fyrir þau, en hafa um leið fallist á að það sé mikilvægt að það séu ákveðin viðmið, sameiginleg sveitarfélögum. Ég tel mikilvægt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem tekur þetta mál til skoðunar, fái fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga á sinn fund til að hlýða á sjónarmið sveitarfélaganna og fara yfir þetta, því að það var niðurstaða okkar að mikilvægt væri að leggja frumvarpið fram með þessum ákvæðum og að þessi skylda væri sambærileg milli ólíkra sveitarfélaga.

Ég vil svo segja það að þetta frumvarp hefur verið í smíðum í meira en ár í samvinnu allra flokka á Alþingi. Auk þess var fulltrúum flokka utan þings gefinn kostur á að mæta á fund nefndarinnar og koma sjónarmiðum á framfæri. Úr því kom ákvæði um að skilyrða fjárframlög við raunverulega starfsemi sem færðar eru sönnur á með árituðum ársreikningi til Ríkisendurskoðunar sem á að hindra að flokkar sem ná lágmarki atkvæða í kosningum geti verið í áskrift að framlögum úr ríkissjóði án þess að vera starfandi. Þar með eru sömuleiðis auknar skyldur lagðar á herðar flokka sem ekki eru inni á Alþingi en eru samt starfandi.

Síðan vil ég segja að þann tíma sem frumvarpið hefur verið í vinnslu hafa verið lagðar auknar skyldur á stjórnmálaflokka vegna nýrra persónuverndarlaga. Ég þykist vita að allir þeir sem starfa fyrir stjórnmálaflokka hafi heyrt af því frásagnir að þessar nýju persónuverndarreglur gera stjórnmálaflokkum flóknara að eiga samskipti og nálgast félaga sem þó hafa skráð sig í flokkana af fúsum og frjálsum vilja og vilja gjarnan taka þátt í starfinu.

Enn fremur má segja um það erindi sem ég lagði fyrir nefndina um að taka á nafnlausu níði að sú barátta hafi tekið á sig nýjar myndir og þróast. Því hafa framkvæmdastjórar flokkanna lagt til að áfram verði unnið á vettvangi flokkanna um það að semja heildarlög um starfsemi stjórnmálaflokka en ekki einungis um fjármál þeirra. Það er mín skoðun að það sé skynsamleg ráðstöfun að fela framkvæmdastjórum flokkanna slíka áframhaldandi vinnu sem mun þá ekki snúast um fjárveitingar hins opinbera til flokkanna, sem ég tel að séu komnar í nokkuð gott horf með þessu frumvarpi og jafna aðstöðumun lítilla og stórra flokka gagnvart hinu opinbera, sem ég tel mikilvægt. Um leið tel ég það skynsamlega nálgun hjá framkvæmdastjórum að leggja til að einfaldlega verði samin heildarlög um starfsemi stjórnmálaflokka þar sem tekið verði á persónuverndarsjónarmiðum, starfsreglum og öðru slíku sem stjórnmálaflokkarnir eiga sameiginlegt þrátt fyrir að vera ósammála um flest annað. Þess vegna eru þeir líklega mismunandi stjórnmálaflokkar.

Ég tel að ég hafi gert ágæta grein fyrir inntaki þessa frumvarps og vil að lokum þakka fyrir gott samstarf við formenn og fulltrúa allra flokka á Alþingi við framlagningu þess. Það skiptir verulegu máli, tel ég vera, að fulltrúar og formenn stjórnmálaflokka geti átt gott samstarf um svona mál. Það er a.m.k. mitt mat eftir að hafa fylgst með stjórnmálum lengi að lýðræðislegar stjórnmálahreyfingar hafi kannski aldrei verið mikilvægari á tímum þar sem við sjáum vaxandi popúlisma í stjórnmálum í heiminum, vaxandi einstaklingshyggju sem ekki byggir endilega á hugmyndafræðilegri sýn og lýðræðislegri uppbyggingu í stjórnmálahreyfingu eins og við þekkjum úr sögunni. Því skiptir einmitt máli að við horfum til þess, vegna þess að það hefur verið algeng iðja og algeng íþrótt að tala niður starf stjórnmálaflokka, að við sem hér erum höldum því til haga að þetta eru ákveðnar undirstöðustofnanir í þingræðis- og lýðræðissamfélögum og það skiptir máli að þessar stofnanir geti sinnt sínu hlutverki, gert það að verkum að fólk geti tekið þátt í stjórnmálum í gegnum lýðræðislega farvegi þar sem fólk tekst á innan sinnar stjórnmálahreyfingar og starfar í anda þeirrar stefnu sem mynduð er með lýðræðislegum hætti. Þannig að ég tel þetta mikilvægt og gott skref í þá átt að gera ríkari kröfur til stjórnmálaflokka á Íslandi, sníða þeim skýrari ramma og jafna rekstrargrundvöll þeirra, en um leið tel ég að við eigum að halda áfram þessari vinnu til að gera þann ramma enn skýrari og betri.

Herra forseti. Ég legg til að að þessari umræðu lokinni verði málinu vísað til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.