149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:40]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekkert að svara þessu öðruvísi en að lögin eru þá bara óbreytt í eitt ár. Það eru ósköp einfaldar ástæður fyrir því að hér var engin umræða í rauninni um hvar gjaldið ætti að liggja vegna þess að í allri 2. umr. voru stjórnarliðar og þar með hæstv. sjávarútvegsráðherra miklu uppteknari af því að finna leiðir til þess að misskilja breytingartillögur stjórnarandstöðunnar. Og þegar blóðþrýstingurinn í mér var sem hæstur í andsvörum við hæstv. sjávarútvegsráðherra þá var það einfaldlega vegna þess að á meðan ég var að reyna að svara þá stóð hæstv. ráðherra hérna og gaspraði fram í, bak við myndavélarnar þannig að hann sást ekki, og var einmitt alltaf að spyrja út í okkar tillögur. Hann virtist ekki hafa minnsta áhuga á að tala um sínar eigin.