149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:42]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, hv. þm. Þorsteinn Víglundsson, ég kannast ekki við það. Ég man þó eftir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra hringdi í mig í aðdraganda þess að hann ætlaði að fá samþykkt frumvarp í vor sem ríkisstjórnin var hrakin til baka með vegna andstöðu þjóðarinnar, en síðan hafa ekki verið nein samtöl á þeim nótum.

Það er auðvitað alveg rétt að málið hefur í rauninni verið til umfjöllunar í nefndinni og margir aðilar komið þar að. Og í flestum tilfellum var nú svo sem vitað hvað flestir umsagnaraðilar myndu segja hvað varðar þennan gamla góðkunningja alþingismanna sem fiskveiðistjórnun og veiðigjöld eru. En ekki var gerð mikil tilraun milli stjórnar og stjórnarandstöðu til að reyna að finna einhvern samningsflöt, eins og raunar fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, reyndi með því að skipa þverfaglegan (Forseti hringir.) hóp sem fór ágætlega af stað. En því miður gat hún ekki haldið áfram vegna þess að ríkisstjórnin sprakk.