149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:41]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Nú ræðum við veiðigjaldafrumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem komið er til 3. umr. Málið hefur fengið töluverða umræðu á fyrri stigum og ætla ég þá að tæpa á nokkrum atriðum. Ég hef sagt það áður að frumvarpið er skref í rétta átt að því leyti að útreikningurinn er færður nær í tíma og er kominn til ríkisskattstjóra. Þá er fiskvinnslan tekin út fyrir sviga.

Í breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar sem kom til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. segir að nytjastofnar sem hafa minna aflaverðmæti en 100 millj. kr. á ári samkvæmt vegnu meðaltali næstliðinna þriggja ára mynda ekki stofn veiðigjalds.

Hugsunin á bak við þetta er réttmæt og er til þess fallin að aukategundum eða svokölluðum meðafla verði frekar landað en undanfarin ár. Þá hafa veiðigjöld af þessum tegundum verið of há miðað við kíló upp úr sjó. Þarna hefði mátt ganga lengra að mínu mati, jafnvel fara í 150 milljónir til þess að fleiri aukategundir yrðu gjaldlausar. Þá myndi brottkast minnka og verðmæti aukast.

Staðreyndin er sú að mikið af þeim tegundum, sem lítið verð er á og veiðigjöld há, skilar sér ekki í land og maður getur alveg ímyndað sér að þeim sé bara fleygt í sjóinn aftur.

Síðar í breytingartillögunni er lagt til: Við álagningu veiðigjalds skal frítekjumark nema 40% af fyrstu 6 millj. kr. álagningar hvers árs hjá hverjum gjaldskyldum aðila.

Gott og vel, þetta er hækkun á afslætti, þetta er skref í rétta átt, en það verður aldrei hærra en 2,4 milljónir. Þetta kemur sér vel fyrir smábáta, t.d. á strandveiðum, og aðrar útgerðir þar rétt fyrir ofan. Meðalstórar útgerðir verða áfram í strögli þar sem 2,4 milljónir eru ekki mikið og gerir ekki mikið fyrir þann stærðarflokk útgerða.

Spurningin er: Hvað eru meðalstórar útgerðir? Þar gætum við verið að tala um útgerðir á bilinu með kvóta frá 200 tonnum upp í sirka 5.000 tonn. Margar útgerðir á landsbyggðinni eru á því bili og þær eru kjölfestan í hverju byggðarlagi og skapa mörgum atvinnu og eru fæstar að greiða sér arð.

Í nefndaráliti mínu, eða 1. minni hluta atvinnuveganefndar, við 2. umr. tel ég að tengja eigi gjaldtökuna betur við afkomu þannig að til staðar verði þrepaskiptur afsláttur sem kæmi þá fleiri útgerðarflokkum að gagni.

Hver útgerðarflokkur hefur sína sérstöðu og er mjög flókið og kannski ósanngjarnt að komast að einni niðurstöðu, þ.e. að einni tölu fyrir hverja fisktegund, út af fyrir sig, enda er frumvarpið útbíað í plástrum, ef svo mætti að orði komast.

Í 5. gr. frumvarpsins er ákvæði um að lækka gjaldið um 1/10 af afla frystiskipa, eða um 10%, vegna umreikninga úr slægðum eða unnum afla til óslægðs afla, en hækka skal skráð aflaverðmæti síldar, loðnu, kolmunna og makríls um 1/10, eða 10%. Við þessa plástra, eins og ég leyfi mér að kalla það, skal þó taka fram að við þetta myndast, eins og einhver sagði, svona stilliskrúfur til jöfnunar á milli uppsjávar- og botnfiskfyrirtækja.

Gjaldið fyrir 2017/2018 greiddu uppsjávarfyrirtæki 29% en botnfiskfyrirtæki 71% af gjaldinu, af heildargjaldinu sem sagt, sem er umtalsverður munur, en í nýja gjaldinu verða uppsjávarfyrirtækin með 44% en botnfiskfyrirtæki með 56%. Þannig að strax við þessa breytingu verður töluverð jöfnun á milli þessara fyrirtækja, uppsjávarfyrirtækja og þeirra sem eru með í botnfisksveiðum, sem eru oft sömu fyrirtækin í stærstu útgerðarflokkunum, hjá stórútgerðinni, og hefur það verið þannig í gegnum árin að þessi munur hefur verið oft sá að stórútgerðin getur jafnað þarna á milli þessara tegunda, uppsjávartegunda og botnfiskstegunda. Hefur útgerðum sem eru bara í botnfiski fundist það ójafnt og þær hafa þar af leiðandi borið meiri byrðar af gjaldinu, eins og ég gat áður um í ræðunni. Á þessu sést að þetta jafnar muninn á milli fyrirtækjanna og er skref í rétta átt. Eins afsláttur sem kemur á við smábáta og útgerðir, eins og áður hefur komið fram.

Á Snæfellsnesi og Vestfjörðum voru veiðigjöld 74% af hagnaði á síðasta ári. Í Grindavík voru veiðigjöld 82% af hagnaði, í Vestmannaeyjum 35% og á Austurlandi 19%. Á þeim tveimur síðastnefndu svæðum, sem greiða lægri veiðigjöld en hin fyrrnefndu, eru uppsjávarfyrirtæki sem skýrir lægri veiðigjöld á hagnaðinn.

Undanfarin ár hefur verið stuttur tími á milli alþingiskosninga í kosningabaráttunni og hefur oftar en ekki verið mikið rætt um innviðauppbyggingu. Og þegar spurt er hvernig á að fjármagna þá gríðarlegu aukningu sem þarf að fara í er svarið oft: Nú, með hærri auðlindagjöldum auðvitað.

Að þessu sögðu vil ég því árétta og minna á þingsályktunartillögu sem ég mælti fyrir í haust, sem var 55. mál, um skilgreiningu auðlinda, og síðan 35. mál, um auðlindagjöld. Sjávarútvegur er síður en svo eina atvinnugreinin sem nýtir auðlindir landsins en er hins vegar eini atvinnuvegurinn sem greiðir fyrir það sérstakan skatt. Það hlýtur því að vera réttlætis- og sanngirnismál að mótuð verði almenn stefna um auðlindir og hvernig gjaldtöku fyrir nýtingu þeirra skuli háttað. Það að ein atvinnugrein sæti sérstakri skattheimtu fyrir auðlindanýtingu er dæmi um mismunun á milli atvinnugreina.

Lengi hafa verið uppi væntingar um að auðlindir landsins skili þjóðinni fjárhagslegum arði með einum eða öðrum hætti. Í gegnum tíðina hafa fyrirtæki í eigu ríkisins greitt arð í ríkissjóð og má þar nefna Landsvirkjun. Auðlindir sem almennt er talað um sem auðlindir þjóðarinnar geta verið af ýmsum toga. Það eru auðlindir í sjó, í lofti eða á landi. Og af því að tíðrætt hefur verið um sátt, að ná sáttum í greininni, og talandi um sátt hljótum við að komast nær sáttinni ef þær auðlindir sem fengju þá greiningu að vera í þjóðareign og skili þjóðinni fjárhagslegum arði, gætum við hvílt rifrildið um sjávarútvegsauðlindirnar, alla vega fært umræðuna á hærra plan en tíðkast hefur undanfarin ár.