149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni afar áhugaverða ræðu þar sem hann fór víða um. Það er hins vegar eiginlega tvennt sem ég hjó eftir, bæði núna í ræðu þingmannsins og í andsvari sem hann átti hér áðan. Hann talaði um að sjávarútvegur á Íslandi sé ríkisstyrktur og færir fyrir því rök. Mér dettur mér í hug, nú erum við með tvöfalt virðisaukaskattskerfi, með lægri virðisaukaskatt á bækur og með lægri virðisaukaskatt á hótelgistingu. Lítur hv. þingmaður á það sem ígildi ríkisstyrks? Við erum líka með hvata í nýsköpun hjá nýsköpunarfyrirtækjum. Er það ígildi ríkisstyrkja? Við fórum líka í það fyrir nokkrum árum að setja í gang mjög stóra auglýsingaherferð vegna ferðamennsku. Finnst hv. þingmanni það vera ríkisstyrkur?

Svo langar mig líka til að spyrja hv. þingmann, af því að hann segir að menn hafi þarna aðgang út í hið óendanlega og verðið ætti þess vegna að vera óendanlegt, en verðið er náttúrlega ákveðið á hverju ári og núna virðist það vera í nokkru samræmi við afkomu í greininni. Spurningin er t.d. sú um þá sem gera út á ómetanlegar náttúruperlur: Ættu þeir að borga eitthvert auðlindagjald fyrir það að búa sér til tekjur langt inn í framtíðina með því? Spurningin er: Eigum við að leggja auðlindagjald á orkuna? Eigum við að leggja auðlindagjald á vatn og gufu? Eða eigum við að halda áfram að hafa þetta svokallaða auðlindagjald bara á einni atvinnugrein?

Mig langar aðeins til þess að fá að heyra skoðanir hv. þingmanns á þessu.