149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þarna var farið dálítið mikið úr einu í annað.

En að vera með lægra virðisaukaskattsþrep er afsláttur af virðisaukaskatti og sem slíkt er það ríkisstyrkur, já. Nýsköpunarstyrkur er tvímælalaust ríkisstyrkur, en það er líka ákveðin fjárfesting, fer eftir aðstæðum þar. Náttúruperlur eða auðlindir í náttúrunni, það er enginn annar með ótímasettan samning til að veita aðgang að einhverri náttúruperlu, svo ég viti til. Í því fyrirkomulagi er það svipað, því að ef kíló af þorski er á 1 kr. en þú hefur óendanlegan langan tíma til að selja það, óendanlega mörg ár, þá er það óendanlega hátt verð, þ.e. ef þú færð það gefins á hverju ári, eitthvað sem þú getur selt á 1 kr. kílóið um alla ævi og lengur, út af erfðum o.s.frv., þá er það óendanlega hátt verð, sinnum óendanleiki, er jafnt og óendanlegt. Auðlindagjald á orku. Af hverju ekki? Við erum með það í ríkisfyrirtæki núna. Það er í rauninni auðlindagjald þar á, það er bara ríkisrekið.

Ég sé ekki alveg endilega tengslin nákvæmlega við þetta. Við erum ekki með sama fyrirkomulag á því, en það væri hægt að setja sama fyrirkomulag og við erum með á orkuframleiðsluna í sjávarútveginum eða öfugt. Við myndum gera það og værum sem sagt með slíka einkaútdeilingu eða einkaheimild eins og er í gangi núna. Þá væri það óendanlega mikils virði.