149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:59]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði af orðum hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur að ekki hefði komið fram nein efnisleg gagnrýni á innihald þessa frumvarps frá stjórnarandstöðunni. Mig langaði að spyrja hana aðeins nánar út í hvað hún túlkar sem efnislega gagnrýni. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður var stödd í salnum þegar ég hélt 15 mínútna ræðu um þann hvata sem myndast til að skjóta undan peningum gagnvart því þegar við erum að fjarlægja vinnsluna út úr reiknistofni veiðigjalds. Umsagnaraðilar og við í stjórnarandstöðunni höfum rætt þetta. Ég eyddi eiginlega allri fyrri ræðu minni við 3. umr. og einnig núna í að ræða um þetta vandamál. Telur hún það ekki efnislega gagnrýni að ræða um þá hættu sem ýmsir umsagnaraðilar hafa bent á, sem og ég? Er ekki efnisleg gagnrýni að tala um að þetta skapi hvata til að skjóta fé undan reiknistofni veiðigjalds, geti mögulega lækkað laun sjómanna og skapað meiri hvata til þess að skjóta peningum undan en ef vinnslan væri enn þá inni? Er það ekki efnisleg gagnrýni? Ég bara spyr.