149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[22:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, sem virðist kannski ekki við fyrstu sýn mjög viðamikið eða stórt en hefur samt að geyma býsna mikilvæg ákvæði. Nefndin fjallaði um þetta mál, ekki í fyrsta sinn, nú í haust þar sem sambærilegt mál var tekið fyrir á fundum nefndarinnar síðastliðið vor. Þá var það samdóma álit nefndarmanna og flutningsmanna frumvarpsins að búa það betur úr garði, m.a. vegna þess að hagsmunaaðilar bentu á að ekki hafi verið haft nægilega mikið samráð við þá og við í hv. velferðarnefnd vorum sammála þeirri niðurstöðu.

Við frumvarpið, eins og það er nú, bárust sex umsagnir en á síðasta þingi bárust einar níu umsagnir. Nefndin kallaði til sín gesti og fékk á sinn fund Bryndísi Þorvaldsdóttur og Elsu Friðfinnsdóttur frá velferðarráðuneytinu, Tryggva Þórhallsson og Sigrúnu Þórarinsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson og Sigurjón Sverrisson frá Öryrkjabandalagi Íslands og Þórunni Bjarneyju Garðarsdóttur frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Eins og rakið er í greinargerð frumvarpsins er markmið þess að jafna aðgang þeirra sem þurfa á dvöl í dvalarrými eða dagdvöl að halda, óháð aldri, og forgangsraða eftir þörf. Mikilvægt er að hér komi fram, frú forseti, að þarna er í rauninni verið að gera ákveðna lagajöfnun, má eiginlega kalla það, við ákvæðið um hjúkrunarrými sem einnig er í sömu lögum. Fyrir allnokkrum árum var sett inn í lögin heimildarákvæði vegna hjúkrunarrýma, en hér erum við fyrst og fremst að tala um dvalarrými og dagdvalir. Með frumvarpinu er því lagt til að lögunum verði breytt á þann hátt að heimilt verði að samþykkja dvöl í dvalarrými og dagdvöl fyrir einstakling yngri en 67 ára ef þörf krefur og viðkomandi einstaklingur óskar þess. Og það er lykilatriðið, frú forseti. Það er algjört lykilatriði í þessu máli að frumkvæðið komi þaðan.

Í umsögnum til nefndarinnar komu fram ýmis sjónarmið og gagnrýni á einstaka þætti frumvarpsins. Þar er kannski helst að nefna þær áhyggjur að veita þessa heimild, því þá værum við að ganga á skjön við þá stefnu sem sumir hafa kallað alþjóðlega, um að gera öllum einstaklingum í samfélaginu kleift að búa að sínu, búa í sjálfstæðri búsetu svo lengi sem kostur er. Að mínu viti og meiri hluta nefndarinnar gengur frumvarpið ekki á skjön við þessi meginatriði heldur er fyrst og fremst verið að tryggja það að með því að veita þessa heimild sé þetta úrræði einnig til boða fyrir þá sem hafa í rauninni engin önnur úrræði sem þeir geta nýtt sér, þar með talið úrræðið notendastýrð persónuleg aðstoð, sem þingið samþykkti heildarlöggjöf um undir nafninu lög um þjónustu við fatlaða með miklar stuðningsþarfir, ef ég man rétt.

Með því að samþykkja þetta frumvarp hefur því líka verið haldið fram að aukið væri á stofnanavæðingu í samfélaginu. Eins og kemur fram í greinargerðinni og eins og raunar kom fram fyrir nefndinni og í umræðum nefndarinnar er það alls ekki markmiðið heldur er það yfirlýst stefna, bæði heilbrigðisráðuneytisins og raunar einnig flestra þeirra sem fjalla um mál sem snúa að þjónustu, líkt og ræðir um í frumvarpinu, að reyna eigi að draga úr henni sem mest og veita sem mest af slíkri þjónustu heima.

Meiri hlutinn áréttar nauðsyn þess að þjónustan sé veitt á því þjónustustigi sem hentar best þörfum einstaklingsins og í fullu samráði við hann sjálfan. Þetta er algjört lykilatriði, þ.e. að einstaklingurinn sem um ræðir sé meginákvarðandinn en ekki eitthvert kerfi, stofnun eða nefnd eða eitthvað þess háttar og að þær ákvarðanir komi í rauninni ekki til fyrr en önnur úrræði hafa verið reynd að fullu. Þetta er ítrekað, a.m.k. á tveimur stöðum í nefndarálitinu.

Einnig var nefnt fyrir nefndinni að menn hefðu áhyggjur af því að það yrði kostnaðarauki af frumvarpinu. Meiri hluti nefndarinnar hefur ekki trú á því þar sem með samþykkt frumvarpsins er ekki verið að fjölga dvalarrýmum heldur er fyrst og fremst verið að opna á heimild til að yngri en 67 ára einstaklingar geti í undantekningartilfellum sótt um dvöl í dvalarrými eins og um er rætt. Það kom raunar fram fyrir nefndinni að um væri að ræða afar fáa einstaklinga, þ.e. þeir sem sæktu um í dvalarrýmum. En hins vegar kom fram fyrir nefndinni að það væri nokkur hópur einstaklinga sem nú byggi í hjúkrunarrýmum og væru 67 ára og yngri. Það er mikilvægt að ítreka það aftur að mjög mikilvægt er að gera greinarmun þarna á, þ.e. þeim einstaklingum sem eru í dvalarrýmum og þeim sem eru í hjúkrunarrýmum.

Eins og hv. þingmönnum er væntanlega kunnugt um eru núna einhvers staðar á bilinu tæplega 3.000 hjúkrunarrými í landinu eða hvort þau eru 2.700, þið farið ekki með það í blöðin, en það er eitthvað á þessu bilinu og þingmenn geta væntanlega flett því upp. Dvalarrými eru hins vegar miklu færri og þau hlaupa aðeins á fáeinum hundruðum. Þannig að hættan á að einhver verulegur kostnaðarauki verði af þessu er ekki mikil. Hins vegar var bent á það fyrir nefndinni og mikilvægt að það komi fram að í einhverjum tilfellum þegar einstaklingar eru mjög ungir og þurfa að sækja í þessi úrræði, þá geti verið að heimilin sem um ræðir þurfi að haga þjónustuþörf sinni þannig að hún henti sérstaklega yngri einstaklingum. Nefndin bendir sérstaklega á það að ráðuneytið þurfi að gera ráð fyrir því við undirstofnanir sínar, og þá kannski sérstaklega Sjúkratryggingar Íslands, að til þessa þurfi að horfa við samningsgerð þegar það á við og það er mjög mikilvægt að það sé gert. Meiri hlutinn undirstrikar hins vegar að hér erum við að tala um afar fáa einstaklinga og þess vegna er kannski ekki sérstök ástæða til að gera ráð fyrir einhverju slíku ákvæði í öllum samningum heldur einungis á þeim heimilum þar sem þessar aðstæður kunna að koma upp.

Nefndin fjallaði einnig töluvert um þörfina á faglegu inntökuteymi og skilyrði fyrir mati á þörf fyrir dagdvöl. Að áliti meiri hlutans er ekki þörf á að setja á stofn sama inntökuferli og þegar sótt er um varanlega búsetu eins og á hjúkrunar- eða dvalarheimilum, enda er í rauninni fyrst og fremst um dagþjónustu að ræða og oft og tíðum er þjónustan ekki sérlega umfangsmikil fyrir þann einstakling sem í hlut á. Þess vegna er kannski ekki sérstök ástæða til að láta fara fram eitthvert flókið eða ítarlegt mat. Í sumum tilfellum kynni jafnvel að duga álit eins heilbrigðisstarfsmanns eða eins aðila innan félagsþjónustunnar sem hefði metið það sem svo að þeirrar þjónustu væri þörf. Meiri hlutinn nefnir m.a. í áliti sínu að þar gæti verið um að ræða lækni, hjúkrunarfræðing, sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa eða aðra aðila. Meiri hlutinn telur einnig mikilvægt að þetta faglega mat verði ekki til þess að tefja um umsóknir eða ferlið og þess vegna sé mikilvægt að við reynum það sem við getum til að einfalda það ferli.

Í nefndinni og umsögnum komu fram áhyggjur að með aukinni áherslu á heilbrigðisþjónustu í tengslum við dagdvalir gæti kostnaður aukist og þar með í rauninni líka væntingar notenda og aðstandenda. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þrátt fyrir að hluti þjónustu dagdvalar sé veittur af heilbrigðisstarfsfólki, sem er þá oft og tíðum sérhæft í þjónustu minnisskertra einstaklinga, þá er þjónusta dagdvalar að grunni til, að mati meiri hlutans, ekki heilbrigðisþjónusta og í þeim tilvikum þar sem auka þarf við slíka þjónustu telur meiri hlutinn eðlilegt að gert sé ráð fyrir því í samningum eins og þeim sem ég nefndi hér áðan.

Einnig komu fram í nefndinni áhyggjur aðila að nokkur munur eða mikill munur væri á kostnaðarmati þjónustuaðila og ríkisins, og kröfulýsing ríkisins á þjónustu ekki að fullu í samræmi við það verð sem vilji væri til að greiða fyrir þjónustuna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að hér er um samninga milli aðila að ræða, í þessu tilfelli Sjúkratrygginga Íslands og þjónustuaðila. En við leggjum hins vegar áherslu á að við slíka samningsgerð þurfi að styðjast við bestu upplýsingar og að bregðast þurfi við þeim breytingum sem kunna að verða á þjónustuþörf einstaklinganna og það á kannski sérstaklega við um þau tilvik sem ég nefndi hér að ofan.

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir álit meiri hlutans rita Ólafur Þór Gunnarsson, framsögumaður, Ásmundur Friðriksson, Andrés Ingi Jónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Ég sé ekki ástæðu til, frú forseti, að hafa þessa tölu lengri og ég hlakka til að heyra öll þau sjónarmið sem kunna að koma fram hjá öðrum þingmönnum um þetta annars ágæta mál.