149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Samþykkt þessa frumvarps fæli í sér mjög sérkennilega og jafnvel nöturlega afstöðu til hugmynda um réttlæti. Á sama tíma og við horfum upp á hópa sem hafa átt bágt og erfitt á löngum uppgangstíma og fengu væntingar um einhverja bót við framlagningu fjárlagafrumvarps, sem var svo dregið til baka af því að forsendur fjárlaganna brugðust þegar íslenska krónan seig, greiðum við atkvæði um frumvarp þar sem að létta á álögum vissulega af fyrirtækjum sem búa við rekstrarerfiðleika en líka fyrirtækjum sem hafa verið að borga sér svo mikinn arð á síðustu árum og á síðasta ári að fæst okkar skilja þá upphæð.

Ég mun ekki samþykkja þessi veiðigjöld.