149. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:59]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér hafa verið látin falla orð um að málið sé þrátt fyrir allt afgreitt í sátt og sett fram í sátt. Sú sátt er a.m.k. ekki í þessum sal, ég held að það sé greinilegt af umræðunni. Ég ítreka enn og aftur að það er sorglegt að menn skuli ekki leggja meira á sig til að reyna að ná þó þeirri sátt sem ég tel að væri alveg hægt að nálgast ef þeir gæfu sér tímann.

Annað er líka svolítið sérkennilegt í umræðunni. Því er haldið fram að eingöngu sé verið að færa gjöldin til í tíma en síðan stíga aðrir stjórnarliðar upp og segja: Því miður, það hefur ekki verið nóg að gert í því að lækka veiðigjöldin.

Ég átta mig ekki á því, hvort er verið að færa þau nær í tíma eða lækka þau? (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Eftir afkomu.) Það er þá einhver misskilningur hjá hv. þingmönnum í stjórnarliðinu sem sögðu alveg skýrt og greinargott: Það er ekki gengið nógu langt í því að lækka veiðigjöldin. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)