149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[17:48]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um heildarendurskoðun laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975. Hæstv. ráðherra hefur farið yfir efni frumvarpsins af mikilli prýði og hafi hún hugheila þökk fyrir. Ég fagna tímabærri framlagningu þess. Að vísu eigum við eftir að hlýða á framlagningu frumvarps til laga um ófrjósemisaðgerðir síðar í kvöld.

Þungunarrof og heimildir til þess hafa alltaf valdið deilum, bæði hér á landi og erlendis, og valda enn. Ekki þarf annað en að fylgjast með fréttum vestan hafs til þess að verða vitni að verulegum samfélagslegum átökum í þessum efnum sem færast svo samhliða yfir á hið pólitíska svið. Í dag höfum við sömuleiðis orðið vitni að tilfinningaríkum ræðum þingmanna hér í sal Alþingis. Það er ljóst að þetta er málefni sem snertir okkur öll og menn og konur hafa skoðanir á þessu með ýmsu móti. Það er eðlilegt.

Í greinargerð með frumvarpinu er rakin með ágætum hætti saga þungunarrofs á Íslandi, eða fóstureyðinga eins og þetta inngrip og aðgerð heitir enn í núgildandi lögum. Eitt af þeim atriðum sem lagt er til að breytt verði í nýju frumvarpi er að tekið verði upp hugtakið þungunarrof í stað fóstureyðinga, sem er mjög gildishlaðið og sker sig úr hvað það varðar ef litið er til annarra landa. Það er ekki svona gildishlaðið hugtak hvað þetta varðar í Norðurlandamálum og eða á enskri tungu. Það er nú ánægjulegt því að í rauninni hefur þetta hugtak þegar skotið rótum og það ber fyrir augu og eyru alloft í umræðunni nú þegar.

Í greinargerðinni með frumvarpinu kemur fram að færa megi rök fyrir því, m.a. í sögulegu samhengi, að á Íslandi hafi ríkt nokkuð frjálslynt viðhorf til þungunarrofs. Fyrstu lögin um fóstureyðingar voru sett árið 1935, eins og kom fram í máli ráðherra fyrr í dag. Fyrir þann tíma giltu einfaldlega ákvæði hegningarlaga frá árinu 1869 sem bönnuðu alfarið fóstureyðingar og við lá allt að átta ára hegningarvinna. Þetta tíundaði hæstv. ráðherra fyrr í dag. Lögin nr. 38/1935 voru því tímamótalög. Þau eru líklega þau fyrstu í heiminum sem heimiluðu þungunarrof á grundvelli félagslegra aðstæðna, þótt heilsufarslegar og læknisfræðilegar ástæður væru jafnan í forgrunni sem ríkasta ástæða inngripa, eða hugsanlega uppgefinna ástæðna inngripa.

Það eru því 43 ár síðan gildandi lög, nr. 25/1975, voru samþykkt hér á Alþingi og var það umdeild lagasetning á þeim tíma. Niðurstaðan var málamiðlun. Frumvarpið hafði verið lagt fram árið 1973, tveimur árum áður, og olli það miklum deilum í samfélaginu og náði ekki fram að ganga. Það þótti ganga of langt í átt til fjálslyndis.

Eðlilegt er að fjallað sé um nýja löggjöf á þessu sviði á okkar dögum. Miklar þjóðfélagsbreytingar hafa orðið frá árinu 1975. Það nær til samfélagslegra þátta jafnt sem lífshátta, menntunar, fjölskyldugerða og stöðu kynjanna.

Fyrirferðarmikið atriði í frumvarpinu og kannski rauði þráðurinn með ýmsum öðrum atriðum er sá grundvallarþáttur sem snýr að virðingu fyrir og viðurkenningu á sjálfsákvörðunarrétti konunnar varðandi barneignir. Þarna hefur okkur reynst erfitt að ná saman og í rauninni greint á. Siðferðileg og trúarleg álitaefni hafa mörgum verið erfið og ýmsa borið af leið og við ekki alltaf verið samkvæm sjálfum okkur.

Vilmundur Jónsson landlæknir hafði skýra hugsun, hans rödd er ekki rödd aftan úr myrkustu kimum öfga og ofstækis eins og á miðöldum. Mér hefur fundist óma svolítið af því í sal hins virðulega Alþingis í dag. Vonandi eru það ekki háværar raddir. Vilmundur Jónsson fangaði kjarna málsins vel þegar hann ritaði árið 1934, með leyfi forseta:

„… láta konur með öllu sjálfráða um, hvort þær vilja verða mæður eða ekki.“

Hér er skynsamlega mælt, þetta eru orð sem standast býsna vel tímans tönn.

Frú forseti. Nefnd sem heilbrigðisráðherra skipaði árið 2016 og unnið hefur þetta frumvarp sem við fjöllum nú um og er, að því er virðist, vandað að allri gerð, komst að þeirri niðurstöðu að heillavænlegast og best færi á að virða sjálfsákvörðunarrétt kvenna með því að heimila konu að óska eftir þungunarrofi til loka 22. viku þungunar. Þannig sé hennar réttur virtur til að taka á frjálsan og ábyrgan hátt ákvörðun um að koma í veg fyrir barneign þegar hún sé ekki til þess búin. Það er mat nefndarinnar að við þessar breytingar á lögunum sé ekkert sem bendi til þess að konur muni fara seinna í þungunarrof en hingað til eða að þeim muni fjölga sem það gera. Það er reynsla nágrannalanda okkar og þeirra landa sem aflað hefur verið upplýsinga um og kom sömuleiðis fram í máli ráðherra í dag.

Það verður afar fróðlegt og krefjandi verkefni að fá að takast á við umfjöllun og meðferð þessa frumvarps í velferðarnefnd og hlýða á og lesa um öll þau viðhorf og umsagnir sem eflaust munu berast til nefndarinnar. Það má heita víst að skoðanir verði skiptar, að tekist verði á um einstaka þætti frumvarpsins, rökin margvísleg og tilfinningar heitar.

Kannski verður erfiðasta álitamálið það sem rætt hefur verið hér nokkuð í dag, þ.e. hvar við eigum að draga mörkin. Eru það 18 vikur, eru það 20 eða 22? Við munum auðvitað leggja okkur fram um að finna sátt í málinu og niðurstöðu. Ég tel að þetta sé gott frumvarp og að það eigi að fá framgöngu.

Ég leyfi mér í niðurlagi þessa ræðustubbs að vitna til ræðu Sighvats Björgvinssonar á Alþingi í heitum umræðum þann 16. apríl 1975 þegar núverandi lög voru til umfjöllunar, og gera þau að mínum lokaorðum. Þau ramma umfjöllunarefnið skarplega inn. Sighvatur sagði, með leyfi forseta:

„Deilan nú stendur því ekki um hvort leyfa eigi fóstureyðingar á Íslandi, heldur um það eitt hversu mikið eigi að meta vilja þeirrar konu sem ber fóstrið undir belti, hvort ástæða sé til þess að ætla að kona, sem orðið hefur ófrísk, sé dómbær um aðstöðu sína til að eiga barn og ala það upp eða hvort opinbert og þá væntanlega óþungað vottorðavald þurfi og eigi að hafa vit fyrir henni. Almenna reglan í okkar þjóðfélagi er sú að hver heilbrigður og sjálfum sér ráðandi einstaklingur eigi að hafa vit fyrir sér sjálfur. Spurningin er hvort þungun sé sjúkdómur eða áfall af því tagi sem skerði hæfi konu til þess arna í þeim mæli að opinbert vottorðavald þurfi að svipta hana sjálfræði …“