149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[18:04]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Það er alveg gríðarlega mikilvægt. Við erum að ræða frumvarp til laga um þungunarrof. Það sem þetta frumvarp gerir er að leysa af hólmi eldri lög um þungunarrof en þau lög fjalla um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Lögin eru komin mjög til ára sinna en þau voru sett árið 1975 þannig að það er mikil þörf fyrir að færa allt fyrirkomulag þungunarrofs til nútímalegra horfs, tel ég a.m.k. og vonandi flestir í þessu húsi.

Ákvörðun um að rjúfa þungun er bæði þungbær og erfið. Það er ákvörðun sem kona tekur með sjálfri sér hver svo sem ástæðan er. Þegar við setjum lög um slíkar ákvarðanir er ein mikilvægasta spurningin hver sé best til þess fallinn að taka slíka ákvörðun.

Ég tel augljóst að það sé konan sjálf af því að enginn er í betri aðstöðu til að meta aðstæður sínar en konan sjálf sem gengur með barnið. Enginn. Það getur enginn annar tekið þessa ákvörðun.

Ákvörðun um þungunarrof, eða fóstureyðingu eins og hún var kölluð í eldri lögum, hefur hingað til verið að miklum hluta til hjá öðrum en konunni sjálfri. Í 11. gr. núgildandi laga segir að það verði að liggja fyrir greinargerð tveggja lækna eða læknis og félagsráðgjafa, já, eða jafnvel geðlæknis, áður en fóstureyðing getur farið fram. Þannig er þessi ákvörðun í raun í höndum annarra en konunnar sjálfrar. Þess vegna er þetta frumvarp svo ofboðslega mikilvægt. Með því yrði horfið frá því fyrirkomulagi og rétturinn til að taka þessa ákvörðun færður til konunnar sjálfrar. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við nefnd sem heilbrigðisráðherra skipaði í mars 2016 til að vinna að heildarendurskoðun laganna. Nefndin lagði einnig til að heimilt yrði að rjúfa þungun að beiðni konu fram að lokum 22. viku ef engar læknisfræðilegar ástæður mæltu gegn því. Það er niðurstaða fjölda sérfræðinga og félagasamtaka sem komu að vinnu nefndarinnar, Félags íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, Landspítala, Ljósmæðrafélags Íslands, Kvenréttindafélags Íslands, Femínistafélags Háskóla Íslands og fleiri sérfræðinga á sviði heilbrigðisvísinda. Öll voru þau sammála um þá breytingu að konan væri best til þess fallin að taka þessa ákvörðun og skyldi eiga þess kost fram til loka 22. viku þungunar, sem eru 21 vika plús sex dagar eins og hefur komið fram í umræðunni hérna í kvöld.

Mín skoðun er sú að sá aðili sem sé best fallinn til að taka ákvörðun um að rjúfa þungun sé konan sjálf. Konum er fyllilega treystandi til að taka þessa erfiðu ákvörðun sjálfar. Það er búið að segja þetta dálítið oft en það virðist þurfa að segja þetta oftar þannig að ég ætla bara að segja þetta oft svo fólk heyri það vonandi.

Áhyggjur þeirra sem lýsa sig mótfallna þessu frumvarpi eiga rætur í því að þau telji ekki að konur ættu að taka þessa ákvörðun sjálfar, að það sé einhver færari til að taka hana fyrir þær, að læknar eða aðrir heilbrigðisstarfsmenn séu einhvern veginn færari um að meta aðstæður konunnar. Þetta lýsir einfaldlega vantrausti í garð kvenna og þeirri skoðun að þær séu ekki færar um að taka ákvarðanir sjálfar án aðkomu ríkisins.

Ef konan telur sig þurfa ráðgjöf, fræðslu, stuðning eða aðra aðstoð frá heilbrigðisstarfsmönnum í tengslum við ákvörðun sína er það skýrt að hún verður áfram í boði. Við viljum bara að ákvörðunin sé konunnar. Þetta er mikilvægt fyrir þær konur sem hafa gengið í gegnum þetta ferli, eins niðurlægjandi og það er núna. Þetta er ótrúlega niðurlægjandi ferli, að vera fullorðin kona að ákveða að fara í þungunarrof og þurfa að hlusta á einhvern í raun og veru bara með fyrirlestur yfir sér um getnaðarvarnir og hvernig það þurfi að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur, eins og þetta sé einhver ákvörðun sem maður tekur bara með því að segja: Æ, þetta skiptir ekki máli, ég ætla ekki að nota getnaðarvarnir af því að ég get bara farið í þungunarrof.

Eins og það sé einfaldasti hlutur í heimi, eins og það sé einhver ákvörðun sem nokkur kona tekur!

Þetta er réttindamál fyrir konur sem tryggir sjálfsákvörðunarrétt þeirra, frelsi og öryggi. Og þetta er ofboðslega mikilvægt mál. Mig grunar út frá umræðunni sem er búin að vera hérna í dag að þeir aðilar sem standa gegn þessu séu ekki bara að tala um vikufjöldann. Það er búið að tala um að það þurfi að færa tímann niður í 12 vikur en það kemur ekki til greina, að það sé fólk sem hreinlega telur að einhverjir aðrir aðilar séu færari um að taka þessa ákvörðun en konan af því að konunni er hreinlega ekki treyst. Það er það sem ég er farin að sjá út frá þessari umræðu.

Það er mjög sorglegt að þetta sé staðan árið 2018, að við séum enn þá þarna, að verða 2019.

Varðandi það að ná sátt um þennan vikufjölda held ég að þetta snúist ekkert um þennan vikufjölda. En ég og við sem sitjum í hv. velferðarnefnd fáum þetta mál til okkar og munum fjalla um það þar á faglegum forsendum þar sem við munum fá fagaðila til okkar. Vonandi verður samstaða um að afgreiða þetta mál frá okkur út frá faglegum forsendum en ekki tilfinningalegum um hvort hægt sé að treysta konum eða ekki til að taka ákvarðanir um líf sitt, öryggi og framtíð.