149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[18:11]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Við erum hér saman komin til að ræða mikilvæga uppfærslu á lögum um þungunarrof sem er löngu tímabær. Lögin sem eru í gildi í dag voru sett árið 1975 og hefur sem betur fer margt breyst frá þeim tíma í íslensku samfélagi. Þar að auki liggur fyrir að í raun hefur ekki verið starfað eftir þeim lengi.

Eins og hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir fór vel yfir í ræðu sinni áðan hefur sjálfsákvörðunarréttur kvenna í tengslum við ákvarðanir um barneign ekki verið nægjanlega vel tryggður samkvæmt núgildandi lögum. Hefur þungunarrof í raun ekki verið frjálst hér á landi, enda eru núgildandi lög barn síns tíma, eins og eðlilegt er og ég kom inn á áðan.

Með því frumvarpi sem við fjöllum um í dag verður einmitt undirstrikaður sá grundvallarréttur kvenna að ráða yfir eigin líkama, yfir eigin heilsu og yfir eigin framtíð með ákvörðun sinni. Er þar með tekið stórt skref í þá átt að virða rétt kvenna til að stjórna eigin lífi.

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða hér að engin kona taki léttilega ákvörðun um að binda enda á meðgöngu yfir höfuð, hvað þá þegar ákvörðunin er tekin á bilinu 18. til 22. viku. Tölfræðin segir okkur ýmislegt varðandi það.

Í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar, kemur fram um fóstureyðingar 2017, að á því ári hafi verið framkvæmdar 1.044 þungunarrofsaðgerðir hér á landi eða 13,1 aðgerð á hverja 1.000 konur á frjósemisaldri. Er það nálægt hinu norræna meðaltali. Flestar aðgerðir árið 2017 voru gerðar hjá konum á aldrinum 20–29 eða tæplega 53% framkvæmdra aðgerða. Stór hluti þeirra kvenna sem gekkst undir þungunarrof á því ári, eða tæplega 64%, hafði ekki gengist undir slíka aðgerð áður.

Þá kemur einnig fram að langflestar aðgerðirnar, eða 95%, fóru fram innan 12. viku meðgöngu og um 3,5% aðgerða fór fram eftir 13–16 vikna meðgöngu, en aðeins rétt rúmlega 1% eftir lengri meðgöngu en 16 vikur.

Það sýnir okkur að það er ekki stórt vandamál hvað það varðar. Reynsla annarra landa, svo við skoðum það líka, sem eru með sambærilega löggjöf og verið er er að leggja til hér á Íslandi, t.d. í Bretlandi og Hollandi, Kanada, bendir til þess að ekki sé ástæða til að ætla að hin nýja löggjöf hafi þau áhrif að fleiri konur fari í þungunarrof eða að konur dragi að óska eftir þungunarrofi, enda er hugmyndin um slíkt raunar fáránleg.

Þetta er nefnilega ein stærsta og mig langar að segja alvarlegasta eða kannski frekar erfiðasta ákvörðun sem kona getur þurft að standa frammi fyrir á lífsleiðinni, að rjúfa meðgöngu. Það er mikilvægt að kona fái frelsi til þess að taka þá ákvörðun sjálf en sömuleiðis, eins og kveðið er á um í frumvarpi þessu, að hún fái allan þann stuðning og þær upplýsingar sem hún þarf til að geta tekið upplýsta ákvörðun.

Staðreyndin er nefnilega sú að það er engum betur treystandi til að taka ákvörðun um eigin framtíð, eigin líf og eigin líkama en konunni sjálfri og það er mikilvægt að tryggja þann rétt í löggjöf. Konur eiga að hafa sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama og er það grundvallaratriði hvað varðar jafnrétti kynjanna. Bandaríski lögfræðingurinn Sarah Weddington orðaði það svo í málflutningi fyrir hæstarétti Bandaríkjanna í máli Roe gegn Wade, með leyfi forseta:

„Þungun er líklega einn mest markandi atburður í lífi konu. Þungun setur mark sitt á líkama hennar, truflar menntun hennar, truflar atvinnu hennar og setur jafnvel allt fjölskyldulíf hennar úr skorðum. Vegna alls þessa er mikilvægt að konan hafi sjálfsákvörðunarrétt þegar kemur að ákvörðun um þungunarrof.“

Í útlöndum hefur þetta hugtak einmitt verið tengt við réttinn til öryggis og til frelsis og hafa sum lönd raunar gengið mun lengra en við erum að tala um hér, samanber niðurstöðu hæstaréttar Kanada í máli er varðar þungunarrof þar sem þungunarrofslög voru hreinlega dæmd ógild. Það eru sem sagt engin lög um fóstureyðingar í Kanada eftir þennan úrskurð, einfaldlega vegna þess að þau fara í bága við ákvæði stjórnarskrár Kanada um rétt einstaklinga til að öryggis og til frelsis og eru nú engar takmarkanir. Hér er verið að ræða um að ganga mun skemmra en svo, þó að persónulega væri ég alveg til í að skoða Kanadaleiðina. En það er önnur saga.

Frú forseti. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að þessi löggjöf sé komin fram og langar mig að nýta tækifærið og þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að stíga þetta skref sem er löngu tímabært. Það er hefur líklega aldrei verið mikilvægara en nú að við tryggjum aðgang kvenna að þungunarrofi til frambúðar og þar með sjálfsákvörðunarrétt kvenna hvað það varðar.

Og það er sérstaklega mikilvægt nú þegar við horfum upp á bakslag í mannréttindamálum víða um heim, sérstaklega hvað varðar sjálfsákvörðunarrétt kvenna þar sem jafnvel er verið að þrengja aðgang kvenna að þungunarrofi.

Frú forseti. Með samþykki þessara laga — og ég hvet þingheim og sérstaklega hv. velferðarnefnd til að leggja til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt — getum við tekið forystu varðandi þessi mál og verið til fyrirmyndar um allan heim, sem er nokkuð sem við getum sannarlega verið stolt af og okkur Íslendingum finnst alltaf svolítið gott að gera. En þarna höfum við sérstaklega gott tækifæri til að gera það, að taka forystu meðal Norðurlandaþjóðanna og vera til fyrirmyndar í heiminum.