149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[18:36]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég reyndi eftir fremsta megni framan af ræðu hv. þingmanns að virða skoðanir hans í þessu máli. En ég verð að viðurkenna að ég átti talsvert erfiðara með það þegar hv. þingmaður ræddi mikið um hversu þungbært þetta væri konum allt saman og setti sig í ákveðið dómarasæti yfir því. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmanni finnist hann hafa einhverjar forsendur fyrir því að meta hvort einhver nafngift hafi einhver áhrif á þessa aðgerð og þá þungbæru reynslu sem alltaf er verið að vísa í, hvort hann hafi einhverja innsýn í þær tilfinningar sem hrærast í konum þegar þær taka slíka ákvörðun, hvort honum finnist hann í raun og veru hafa eitthvert tilkall til að vera með einhverjar yfirlýsingar í þeirra garð.

Um þverbak keyrði þegar hv. þingmaður fór að draga inn í fólk sem er að reyna að eignast börn en getur það ekki eða hefur misst fóstur eða hefur lent í andvanafæðingu og ætlar, að því er virðist, að setja það til höfuðs konum sem eru að hugsa um hvort þær geti hugsað sér að ganga með barn í einhvers konar samviskubitsgapastokk. Og spyrða það saman við þetta mikilvæga mál.

Hann finnur til með því fólki, kom fram í ræðu hv. þingmanns. Ég get ekki virt það viðlits þegar svona samviskubitsömurðartaktík er notuð gagnvart konum, að þær eigi núna líka, þegar þær hugsa um að fara í þungunarrof, að hugsa um allt fólkið sem er að reyna að eignast börn og hvað það sé skelfilega ljótt af þeim að ganga ekki með barnið, vera einhvers konar staðgöngumæður fyrir barnlaust fólk, og að hún skuli láta sér detta í hug að fara þess í stað í þungunarrof.

Mér finnst þetta skammarleg orðræða. Ég skil ekki hvernig hv. (Forseti hringir.) þingmanni finnst réttlætanlegt að halda þessu fram, verandi af því kyni sem hann er.