149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Allir hljóta að sjá að það gengur ekki að gera grundvallarbreytingar á því hvernig gjald er innheimt til að byggja upp vegakerfið okkar og að það sé kynnt umhverfis- og samgöngunefnd viku áður. Svo á að taka þetta út úr nefndinni með nefndarálitinu. Þetta er grundvallarbreyting á gjaldheimtu í landinu. Um þessa samgönguáætlun hafa verið send inn 71 erindi frá sveitarfélögum og byggðarlögum, fólki, stofnunum og fyrirtækjum, að sjálfsögðu um allt land af því að það þarf svona samráð til að geta gert samgönguáætlun. Við gjörbreytum ekki gjaldheimtu fyrir þennan málaflokk í nefndaráliti. Þetta er einn mikilvægasti málaflokkurinn, sá málaflokkur sem er fólki hvað kærastur í dag. Hann var númer tvö í forgangseinkunn hjá kjósendum landsins. Maður breytir því ekki svona. Það hljóta allir að sjá.

Ef það á að þvinga málið út úr nefndinni þýðir það að Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Ari Trausti Guðmundsson (Forseti hringir.) þurfa að taka þátt í því. Það þarf fimm til að þvinga það út úr nefndinni ef minni hlutinn vill halda (Forseti hringir.) áfram að kalla eftir umsögnum. Ókei, hann gæti gert það. Þá þarf líka forseta Alþingis til að kasta þessu hingað (Forseti hringir.) inn í þetta ástand. Og að sjálfsögðu (Forseti hringir.) þurfum við að tala. Við þurfum að tala (Forseti hringir.) til að hægt sé að senda inn umsagnir um þetta mál. Og það er nákvæmlega það sem við munum gera.