149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[19:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og mörgum öðrum þingmönnum er mér svolítið annt um virðingu Alþingis. Ég vildi óska þess að fólk virti Alþingi meira. En hér á bæ er oft dottið í það að fara að mála upp virðingu Alþingis út frá því hvort menn séu með bindi eða í hvernig buxum þeir eru, einhverjum yfirborðskenndum aukaatriðum sem skipta nákvæmlega engu máli. En svo þegar kemur að raunverulegri hegðun, t.d. í samskiptum þingflokka og í nefndum og slíkt, kemur það fyrir á góðum dögum sem vondum, að hv. þm. Jón Gunnarsson virðist leggja sig fram um að sýna slíka framkomu að fólk verður auðvitað að svara fyrir. Það verður að svara. Maður lætur ekki svona ganga yfir sig. Það er bara fáránlegt.

Mig langar að biðja forseta og formenn sérstaklega um að brýna fyrir þingmönnum sínum að virðing felst í hegðun. Hún felst ekki í því að ganga um með bindi og í jakka eða vera ekki í gallabuxum. Hún snýst um það hvernig við komum fram (Forseti hringir.) hvert við annað. Þessi framkoma hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, (Forseti hringir.) starfandi formanni umhverfis- og samgöngunefndar, er slæm. Hún er til skammar. (Forseti hringir.) Það er það sem við ættum að vera að velta fyrir okkur hvar þurfi að sýna virðingu, þ.e. í hegðun hér innan húss, ekki einhverjum klæðaburði, öðru eins yfirborðskenndu rugli.