149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég kippi mér í sjálfu sér ekkert sérstaklega upp við það þótt þingmenn og forvígismenn einstakra mála séu óttalegir klaufar þegar kemur að því að ná fram málamiðlun og leiða mál til lykta. Það verða þeir hv. þingmenn að eiga við sig sjálfa. En það er algjör vanvirðing fyrir þinginu þegar búið er að breyta málinu svo mjög í meðförum meiri hluta nefndarinnar — og rétt að halda því til haga að það er fyrst og fremst meiri hluti nefndarinnar sem hefur unnið þær breytingar og minni hlutinn er rétt að fá að sjá þær núna — að búið er að auka áætlunina umtalsvert að umfangi, það er búið að gerbreyta fjármögnun hennar. Við eigum alveg órædd grundvallarsjónarmið þegar kemur að slíkri fjármögnun og ýmis sjónarmið sem slíka fjármögnun varðar eða veggjöld, varðandi persónuverndarsjónarmið, varðandi jafnræði milli landshluta og svo mætti áfram telja. Það er grundvallarkurteisi gagnvart þinginu að gefa því nægan tíma til að ræða (Forseti hringir.) það af einhverri vandvirkni. Það er ekkert sem hastar á að þetta mál sé klárað í þessari (Forseti hringir.) viku ef hér á að ríkja sátt um þingfrestun. Það er ekkert sem liggur á. (Forseti hringir.) Það er nægur tími til að ljúka málinu (Forseti hringir.) í janúar eða febrúar.