149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[21:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir afar góða umræðu. Í raun og veru eru að mörgu leyti ákveðin tíðindi í þessari umræðu. Ég vil segja í fyrsta lagi að það gleður mig sérstaklega að hafa fundið fyrir þeirri öflugu kvennasamstöðu sem ég hef skynjað hér og heyrt í þinginu sem er þvert á flokka og endurspeglast í ræðum hjá hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur og fleiri þingkonum sem hafa talað hér undir lokin, en einnig hafa auðvitað ýmsir karlar á þingi talað inn í þennan straum.

Það er komið að því að við uppfærum þessa löggjöf á Íslandi. Mig langar að lesa brot úr ræðu til að minna okkur á hversu mikið af þeirri umræðu sem hér er er tímalaust. Þetta er ræða sem á hv. varaþingmaður Alþýðubandalagsins 1975, Soffía Guðmundsdóttir, hélt á Alþingi. Þegar hún mælti sjálf fyrir breytingartillögu við frumvarp sem þá hafði verið breytt í þá veru að þremur karlmönnum hafði verið falið að tryggja að sérfræðingar pössuðu upp á konurnar sagði hún, með leyfi forseta:

„Það hefur margoft komið fram í umræðum innan þings og utan og sakar ekki að endurtaka það að slíkt vald yfir lífi og örlögum annarra má engum fela í hendur. En það má með sanni segja að karlmannavaldið lætur ekki að sér hæða frekar en fyrri daginn.“

Þetta er árið 1975 og segir síðar í ræðunni, með leyfi forseta:

„Það er ekki fyrr en sú tillaga er uppi að helsti málsaðilinn, konan sjálf, fái ákvörðunarréttinn, að menn taka að ýfast og virðast því aðeins vera reiðubúnir að fallast á heimildir til fóstureyðinga að það sé tryggt að einhver annar en konan sjálf taki ákvörðun þar um.“

Það er miklu fleiri góðir kaflar í þessari ræðu og það er líka áhugavert sem kemur fram í ræðunni þegar hún segir:

„Þetta er dæmigert kvenréttindamál, því að hér er einmitt um að ræða rétt konunnar til sjálfræðis og ábyrgðar. Sá réttur hefur ævinlega verið harðsóttur og svo er enn. Allar réttarkröfur, sem miðast við að konan viðurkennist sem sjálfstæður einstaklingur, hafa löngum mætt harðri mótspyrnu. Nægir þar að minna á baráttuna fyrir rétti kvenna til fjárforræðis, til mennta og starfa, að ógleymdri baráttunni fyrir kosningarrétti og kjörgengi.“

Því miður á enn allt of margt við af því sem þáverandi hv. þm. Soffía Guðmundsdóttir sagði hér á Alþingi og minnir okkur á að það þarf að sækja þennan rétt stöðugt og á hverjum einasta degi. Þess vegna fagna ég því sérstaklega hversu breið pólitísk samstaða er um mikilvægi þessa máls þó að við höfum því miður horft upp á það í síðustu þingkosningum að hér varð bakslag í kvenfrelsismálum á Alþingi. Það varð ekki bara bakslag í því að konum stórfækkaði á Alþingi heldur var líka bakslag að því er varðaði umræðuna í samfélaginu og innkomu flokka sem tala gegn kvenfrelsi.

Við höfum því miður heyrt ræður af þeim toga í dag frá hv. þingmönnum Flokks fólksins og þingmönnum Miðflokksins. En það sem ég heyri í þessari umræðu er að á þessu þingi, á þessum örlagaríka vetri okkar á Alþingi þar sem við höfum horfst í augu við mjög erfiða hluti sem höggva nærri trú okkar á að kvenfrelsið sé raunverulegt á Íslandi, er einstakt tækifæri þar sem við getum með breytingu á þessari löggjöf sett Ísland þar sem það vill vera með frjálslyndri og öflugri löggjöf í fremstu röð í heiminum þar sem kynfrelsi kvenna og sjálfsákvörðunarréttur er virtur.

Bakslag í höfðatölu við síðustu kosningar á ekki að hindra okkur í því vegna þess að við getum nefnilega safnað liði utan um svona gott mál, óháð stjórn og stjórnarandstöðu, og við eigum að gera það.

Mig langar að nefna nokkur efnisatriði úr umræðunni. Nokkrir þingmenn nefndu niðurstöðu hæstaréttar Kanada um að fella úr gildi lögin sem þar voru felld úr gildi og nokkrir þingmenn nefndu það hér, sem er staðreynd málsins, að sú niðurstaða hæstaréttar Kanada byggði á ákvæði í stjórnarskránni sem snerist um réttinn til lífs, frelsis og mannhelgi. Hvers? Móðurinnar. Konunnar. Það er konan sem á þennan stjórnarskrárvarða rétt sem gerði það að verkum að lög um tímatakmarkanir voru úr gildi fallin.

Í Hollandi er mjög lág tíðni þungunarrofs þrátt fyrir þennan vikufjölda sem hér er verið að ræða vegna þess að þar er mikil áhersla á fræðslu og ráðgjöf um kynheilbrigði. Samhliða þessum breytingum á lögum erum við með frumvarp sem hefur gengið undir heitinu pillufrumvarpið og er til að tryggja að ljósmæður og hjúkrunarfræðingar geti ávísað getnaðarvarnarlyfjum og auk þess setjum við á stofn nýtt fagráð um kynheilbrigði. Þessi atriði eru samhliða því frumvarpi sem hér er rætt vegna þess að samhliða verður að vera aukin fræðsla, bætt aðgengi að getnaðarvörnum o.s.frv.

Annar staðreyndapunktur er að í Svíþjóð er löggjöfin rýmst á Norðurlöndum. Þar eru vikurnar 18 en þar eru fleiri aðgerðir fyrir lok níundu viku en annars staðar á Norðurlöndunum. Hvers vegna? Vegna þess að þar er líka meiri fræðsla. Það þýðir að vikufjöldinn sem slíkur hefur ekkert að segja, a.m.k. ekki í þessum samanburðarlöndum, um það hversu margar fóstureyðingar eru ákveðnar eða framkvæmdar, hversu mörg þungunarrof, hversu seint í ferlinu o.s.frv. Kjarni málsins er að krafan um sjálfsákvörðunarrétt kvenna snýst ekki um fjölda vikna. Hún snýst um að konan eigi að hafa fullt vald yfir líkama sínum og að enginn annar geti tekið ákvörðun um það hvort hún ætlar að láta rjúfa meðgöngu sína eða ekki. Hvorki sérfræðingar, læknar, félagsráðgjafar né aðrir þeir sem telja sig vera sérfræðinga geta gert hennar líkama að sinni lögsögu í því máli.

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir afar góða umræðu og vona að hv. velferðarnefnd leiði þetta mál til hafnar.