149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

losun fjármagnshafta.

[10:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir það með hæstv. fjármálaráðherra að á heildina litið hefur losun hafta og þær aðgerðir gengið vonum framar. En vegna þess að hæstv. ráðherra spyr skal ég rifja upp fyrir honum hvernig áformin varðandi aflandskrónurnar voru. Það var kynnt að þeir sem ekki tækju þátt í gjaldeyrisútboðum gætu ekki vænst þess að fara betur út úr því með því að sniðganga útboðin. Í framhaldinu, þegar Seðlabankinn hefur svo viðræður við tiltekna aðila sem voru ósáttir við það gengi sem þeim bauðst, voru skilaboðin frá stjórnvöldum þessi: Menn geta þá bara að hætt á það, ef þeir eru ekki tilbúnir í þau býtti, að sitja hér fastir árum, jafnvel áratugum saman.

Skilaboðin voru þau að ef menn væru ekki tilbúnir að taka þátt í því sem þyrfti að gerast til að hægt væri að losa höftin þá færu þeir ekki betur út úr því en aðrir. En nú er niðurstaðan sú að veðmál vogunarsjóðanna gekk upp. Þeir keyptu þessar eignir með umtalsverðum afslætti og stjórnvöld gáfust upp á endanum. Það var ekkert að marka það að menn yrðu læstir hér inni ef þeir létu ekki undan.