149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

skortur á hjúkrunarfræðingum.

[10:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Heilbrigðiskerfið á við ákveðin mönnunarvanda að stríða, m.a. mönnunarvanda hjúkrunarfræðinga. Samkvæmt áætlunum Landspítalans vantar þar mjög upp á, sem þýðir að kostnaður við að manna stöður hjúkrunarfræðinga er mun hærri en ef allar áætlanir stæðust og það væri eðlileg mönnun þar. Þegar laun lækna hækkuðu batnaði mönnunarvandi lækna sem þá var. Það má leiða líkur að ákveðinni fylgni þar á milli, að batni laun þá leysist mönnunarvandinn, því að það eru mjög margir hjúkrunarfræðingar sem starfa ekki sem hjúkrunarfræðingar og er launum þar um að kenna.

Mig langar að spyrja ráðherra um einmitt það vandamál, að við borgum meiri pening fyrir dýrari mönnunarúrræði en við gætum haft. Á sama tíma gætum við einfaldlega borgað betri laun til þeirrar stéttar sem mönnunarvandi er í án þess að kosta neinu aukalega til við það sem við gerum núna.

Mér þætti áhugavert að heyra hjá hæstv. ráðherra sem fer með kjaramálin hvort einhver stefnubreyting sé í farvatninu varðandi það að fara í gagngera endurskoðun og breytingar á þessu til að laga það vandamál sem við stöndum frammi fyrir.