149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

skortur á hjúkrunarfræðingum.

[10:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að þetta er fjölþættur vandi og tvímælalaust framtíðarvandi en við erum líka með fullt af hjúkrunarfræðingum sem eru ekki að vinna sem hjúkrunarfræðingar, að hluta til út af því að launin eru vandamál. Við erum með nútímavanda sem væri hægt að leysa með þessu.

Mig langar til að spyrja ráðherra um annað líka. Í fjáraukanum er framlag vegna kirkjujarðasamkomulagsins. Í svari ráðuneytis við fyrirspurn fjárlaganefndar kemur fram að samkvæmt kirkjujarðasamkomulaginu greiðir ríkið laun 138 presta en þar kemur líka fram að þeim stöðum fjölgar eða fækkar eftir skráningum í þjóðkirkjuna. Nú hefur a.m.k. fækkað um 10.000 manns í þjóðkirkjunni frá því að þetta kirkjujarðasamkomulag var gert sem ætti að þýða fækkun um tvö stöðugildi presta, en miðað við svar ráðuneytisins er fjöldinn óbreyttur. Ég var að velta fyrir mér hvort ráðherra ætlaði að lagfæra þetta.