149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

157. mál
[11:37]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Hér liggur fyrir frumvarp til breytinga á lögum um aðbúnað og hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þ.e. undanþáguákvæði hvað varðar vinnutíma starfsmanna sem veita notendastýrða, persónulega aðstoð. Þetta bráðabirgðaákvæði hefur í raun verið við lýði það tilraunatímabil frá því að farið var að veita notendastýrða, persónulega aðstoð, sem lögfest var á hinu háa Alþingi í vor og tók gildi 1. október. Enn hefur ekki tekist að búa svo um hnútana að hagsmunir þjónustuaðila séu tryggðir í samræmi við vinnutímatilskipun EES og ESB, þaðan sem svo margt gott kemur, þannig að farið er fram á framlengingu bráðabirgðaákvæðis í eitt ár. Við viljum hvetja ráðuneytið og stjórnvöld til að nýta þennan tíma vel og ganga þannig frá málum að ekki þurfi að koma til frekari bráðabirgðaákvæða. Það er mikið í húfi: réttindi einstaklinga með fötlun. Það er baráttumál sem er hægt og bítandi að nást í gegn.