149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

lyfjalög og landlæknir og lýðheilsa.

266. mál
[12:12]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir ræðu hennar. Eins og þingmaðurinn kom inn á er það framfaraskref sem hér er verið að stíga en jafnframt töluverð breyting sem við erum að gera. Þingmaðurinn nefndi í ræðunni það fyrirkomulag sem víða er í Bandaríkjunum. Nú er mér kunnugt um að víðast hvar, þar sem það er, er ávísunum hjúkrunarfræðinga eða þeirra sem kallast aðstoðarmenn lækna, heitir á ensku „physician assistant“, þær ávísanir eru engu að síður á ábyrgð læknis sem stendur fyrir þeirri stofnun sem viðkomandi starfar á, þannig að endanlega ábyrgðin er ekki á sama hátt hjá þeim heilbrigðisstarfsmanni, eins og við erum í rauninni að gera ráð fyrir hérna með þessum ávísunum. Þarna á er nokkur munur.

Ég er hins vegar algerlega sammála hv. þingmanni í því að það kunni að vera skynsamlegt með tíð og tíma að víkka aðeins út þessar heimildir, en þá kannski einmitt með því fyrirkomulagi sem hv. þingmaður nefndi og við þekkjum frá mörgum fylkjum Bandaríkjanna.