149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[13:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Staða Íslandspósts er grafalvarleg. Það dylst engum, en það ætti heldur ekki að koma neitt á óvart. Staða Íslandspósts hefur nefnilega verið grafalvarleg árum saman. Má jafnvel segja að svo hafi verið í rúman áratug. Hæstv. samgönguráðherra talar um óvissu vegna þróunar á bréfa- og pakkasendingum en þessi svokallaða óvissa hefur verið öllum ljós í a.m.k. áratug og er vel hægt að fara á internetið og sjá umræðu um þetta fyrirtæki. Óvissan er því í raun engin óvissa. Stjórnvöld hafa bara ekkert brugðist við.

Ýmislegt virðist hafa verið gert í tilraunum til að bæta hag þessa opinbera hlutafélags en einnig virðist sem ýmsar aðgerðir stjórnenda hafi frekar aukið vanda þess. Þá hefur einnig undanfarinn áratug hið minnsta verið til skoðunar hjá samkeppnisyfirvöldum hvort hið opinbera hlutafélag, Íslandspóstur ohf., kunni að hafa nýtt eitthvað af því fjármagni sem það fær frá ríkinu inn í rekstur eða eignir sem tilheyra dótturfélögum í samkeppnisrekstri.

Forstjóri Íslandspósts kom fram í fjölmiðlum á dögunum eftir að meiri hluti fjárlaganefndar hafði afgreitt tillögur sínar um lánveitingar til handa þessu félagi, um 1.500 millj. kr. Sagði hann að með neyðarláni ríkissjóðs, sem meiri hluti Alþingis samþykkti við lokaumferð fjárlaga, sé fyrirtækið komið fyrir vind í bili. En, frú forseti, þrátt fyrir þessa miklu fjárheimild, því að varla er fyrirtækið bært til að endurgreiða lánið, segir forstjórinn að blikur séu á lofti strax á næsta ári.

Ég verð að segja, frú forseti, að ég hef mjög miklar áhyggjur af þessari stöðu og meira en það, ég hef líka mjög miklar áhyggjur af andvaraleysi ríkisstjórnarinnar sem á að passa upp á fjármuni okkar allra, sameiginlega fjármuni landsmanna. Ég hef áhyggjur af því að sömu stjórnendum og hafa stýrt þessu fyrirtæki allan þennan tíma, a.m.k. síðasta áratug, sé falið að halda áfram um stýrið. (Forseti hringir.) Ég hef áhyggjur af því að okkur sem eigum að hafa eftirlit með okkar stofnunum, fyrirtækjum okkar, sé gert að samþykkja taumlausar fjárveitingar til fyrirtækis sem áfram er stýrt á sama veg.