149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[14:16]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir að hefja þessa umræðu því að við heyrum á þessum ræðum að það er gríðarlega mikilvægt að ræða um Íslandspóst og framtíð póstflutninga í landinu.

Mig langar að byrja á að segja að mér fannst hreint út sagt ömurlegt að þurfa að afgreiða neyðarlán til Íslandspósts um daginn. Ég gerði það engu að síður vegna þess að fjárlaganefnd hafði sett stífa skilmála gagnvart því, ákveðin skilyrði sem pósturinn þarf að uppfylla. Einnig vegna þess að ég heyrði engan hér í þingsal koma með einhverjar betri hugmyndir um hvernig bregðast ætti við því ástandi sem uppi var.

Í mínum huga var ekki leiðin að segja nei við þessu láni og láta Íslandspóst fara í gjaldþrot. Mér heyrist allir í þessum sal vera sammála um að það sé mikilvægt að halda uppi póstþjónustu í landinu. Ég ætla reyndar að segja það fyrir mitt leyti að mér finnst alveg hundleiðinlegt að fá póst og myndi vilja fá miklu sjaldnar ef því væri að skipta og held að það mætti alveg skoða ákveðna hagræðingu þegar kemur að slíku.

En hvað fyrirtækið Íslandspóst varðar þá er um flutningsfyrirtæki að ræða og það er alveg fullt af flutningsfyrirtækjum úti á markaðnum sem sinna ýmiss konar þess háttar þjónustu.

Auk þess sjáum við fram á þá miklu breytingu sem felst í rafrænni þjónustu og rafrænni póstþjónustu þannig að sá markaður er að breytast mjög mikið. Það eru auðvitað helstu rökin sem stjórnendur Íslandspósts hafa fært fyrir þeirri stöðu sem upp er komin, sem er ekki alveg ný og stjórnvöldum hefur svo sem verið ljós í ákveðinn tíma þó að ekki hafi verið brugðist við fyrr en núna.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég held að það sé mikilvægt að við ræðum frumvarp um framtíð póstþjónustunnar sem liggur fyrir þinginu. Ég hefði sjálf gjarnan viljað sjá að við seldum fyrirtækið Íslandspóst og byðum út þá þjónustu sem við teljum að sé þess eðlis að það þurfi að greiða eitthvert ríkisfé með og leyfa fyrirtækjum á markaði að taka þátt í slíku útboði, því að þetta er mikilvæg þjónusta. Ég get engan veginn séð rök fyrir því að reksturinn þurfi endilega að vera á herðum ríkisins til lengri tíma litið.