149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

birting upplýsinga í svari ráðuneytis.

[14:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að skilja við það mál sem ég bar upp áðan eftir það sem hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði, það er ekki hægt að hengja ábyrgðina á þessu máli á forsætisnefnd eða þingið. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að þær upplýsingar sem beðið var um voru sendar hingað undir sumarlok, rétt áður en þing kom saman, undir því fororði að þingið ætti að ákveða hvort þær bæri að opinbera eða ekki. Það er ekki hlutverk þingsins, hæstv. forseti, að ritskoða eða ritlesa svör framkvæmdarvaldsins til Alþingis. Svörin eiga að vera þannig að þau séu skýr og þau séu tilbúin til þess að leggja fram. Alþingi á ekki að vera eitthvert sigti fyrir framkvæmdarvaldið til að greiða úr þeim svörum sem send eru. Þess vegna segi ég aftur, frú forseti, að nú krefst ég þess að þær upplýsingar sem beðið var um upphaflega 26. febrúar sl. verði lagðar fram, nú þegar.