149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að leita álits hjá hv. þingmanni um það sem er að finna í umsögn Ríkisendurskoðunar um fjáraukalögin þar sem talað er um fjárveitingar samkvæmt varasjóðnum og því um líkt. Í umsögninni segir:

„Eftir sem áður er að finna dæmi um auknar fjárveitingar til að mæta útgjöldum sem vandséð er að séu tímabundin, ófyrirséð og óhjákvæmileg innan fjárlagaársins, og ekki hefði verið unnt að bregðast við þeim með öðrum úrræðum sem tilgreind eru í lögunum …“

Þar er talað um varasjóði og millifærslu fjárheimilda innan málaflokka en einnig má taka sem dæmi 30. gr. laga um opinber fjármál þar sem fjárheimildir eru einfaldlega teknar af fjárlögum næsta árs sem vantar þarna upp á. Ríkisendurskoðun talar einnig um að ákvörðunin um það hvort viðeigandi úrræði, þ.e. sem gripið er til, fjáraukalög eða varasjóður, séu á einhverjum forsendum pólitísk þannig að Ríkisendurskoðun segist eiga erfitt með að skera úr um hvort rétt séu eða ekki þrátt fyrir að hún segi að augljóslega sé vandséð að þær heimildir sem teknar eru sem dæmi eigi við þau skilyrði sem kveðið er á um til nýtingar á varasjóði og fjáraukalögum.

Þá erum við komin í dálítinn vanda með það að segja: Hver segir þá til um hvort skilyrði laganna séu uppfyllt eða ekki? Ef þetta er bara á pólitískum forsendum, erum það þá við í minni hlutanum sem eigum að standa vörð um þetta? Er það ekki á pólitískum forsendum líka? væri auðvelt að spyrja. Er það ekki í rauninni Alþingi sem á að vera ákveðið á bremsunni og vera hart á því hvernig lög um opinber fjármál eiga að virka? Við erum að setja þessi lög fyrir okkur og sérstaklega (Forseti hringir.) fyrir framkvæmdarvaldið.