149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Í öllum aðalatriðum erum við á sömu línu með hversu flókið þetta verkefni getur verið á hverjum tíma. Ég ætla ekkert að kinoka mér við því að á sumt getur verið varpað pólitísku ljósi og allt er umdeilanlegt sem við gerum, en við nefnum í meirihlutaáliti okkar að enn vantar reglugerðir um beitingu almenna varasjóðsins og síðan um meðferð varasjóða málaflokka. Það þekkir hv. þingmaður ágætlega, rétt eins og við. Það hefur verið verkefni okkar á liðnum tíma í hv. fjárlaganefnd að fjalla um þessa þætti. Við eigum nokkur dæmi um það sem hafa orkað tvímælis á undanförnum árum um meðferð varasjóðs, meðferð varasjóða málaflokka og síðan fjárauka. Meginlínan er sú, hv. þingmaður, að hér hafa orðið miklar framfarir og hér erum við með óvenjulítil frávik sem við erum að fjalla um í þessu fjáraukalagafrumvarpi sem ég fagna sérstaklega. Það kemur samt ekki í veg fyrir að einhvern tímann er þessi möguleiki notaður fyrst enn er þessi fjáraukalagaheimild til og fjárauki er enn inni í lögunum sem verður þá vonandi fyrst og fremst notaður sem algjört neyðarúrræði þegar málin komast í meiri festu og við förum að keyra lögin af þeirri festu sem þau innifela.

Margt má um þessi nýju lög segja en ég held að í öllum aðalatriðum hafi fjárstjórnarlegt aðhald og fjárstýringaraðhaldið virkað sem best það getur.