149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:37]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku frá allsherjar- og menntamálanefnd. Um er að ræða stjórnarfrumvarp frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og er að finna á þskj. 178, mál nr. 176.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hlyn Ingason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Karítas H. Gunnarsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Finn Þór Birgisson frá utanríkisráðuneyti, Rósu V. Guðmundsdóttur og Kára Þórðarson frá Ásútgáfunni ehf., Herdísi Hallvarðsdóttur og Gísla Helgason frá Hljóðbók slf., Stefán Hjörleifsson frá Storytel á Íslandi, Aðalstein Júlíus Magnússon frá Hlusta ehf., Gísla Einarsson frá Nexus afþreyingu ehf., Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur og Helgu Kristínu Gunnarsdóttur frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Sverri Örn Björnsson frá yfirskattanefnd, Heiðar Inga Svansson, Halldór Birgisson og Bryndísi Loftsdóttur frá Félagi íslenskra bókaútgefenda, Margréti Tryggvadóttur og Ragnheiði Tryggvadóttur frá Rithöfundasambandi Íslands, Friðbjörgu Ingimarsdóttur og Jón Yngva Jóhannsson frá Hagþenki, Erling Jóhannesson frá Bandalagi íslenskra listamanna og Gunnar Helgason og Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur frá SÍUNG – Samtökum íslenskra barna- og unglingabókahöfunda. Umsagnir um málið bárust frá Ásútgáfunni ehf., Bandalagi íslenskra listamanna, Félagi íslenskra bókaútgefenda, Hagþenki, Hljóðbók slf., Hlusta ehf., Landsbókasafni – Háskólabókasafni, Nexus afþreyingu ehf., Rithöfundasambandi Íslands, SÍUNG – Samtökum íslenskra barna- og unglingabókahöfunda, Storytel á Íslandi og yfirskattanefnd.

Áður en ég fer yfir nefndarálit hv. allsherjar- og menntamálanefndar ætla ég að vísa í þingsályktunartillögu sem liggur fyrir þinginu og er komin til umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, tillögu til þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.

Þar segir:

„Alþingi ályktar um mikilvægi íslenskrar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungumálið verði áfram notað á öllum sviðum íslensks samfélags. Unnin verði aðgerðaáætlun til þriggja ára á því sviði, í víðtæku samstarfi. Allir sem búsettir eru á Íslandi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi. Þeir skulu eiga rétt á að nota íslensku í öllum samskiptum við opinberar stofnanir og fyrirtæki sem veita eða selja almenningi þjónustu, sbr. lög um íslenska tungu og íslenskt táknmál, nr. 61/2011.“

Helstu markmið eru síðan tilgreind:

„Íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins. Íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum ásamt menntun og starfsþróun kennara. Framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð.“

Tillögunni fylgir aðgerðaáætlun sem er til vitundarvakningar um íslenska tungu og er undir yfirskriftinni „Áfram íslenska“ og tengist öllum sviðum þjóðlífsins. Menntun og skólastarf er eitt svið og menning annað en þar er innlend dagskrárgerð m.a. nefnd, einkareknir fjölmiðlar og bókaútgáfa. Þar segir að stutt verði við útgáfu bóka á íslensku vegna mikilvægis íslenskrar bókaútgáfu fyrir þróun tungumálsins og eflingu læsis. Fleiri þættir eru nefndir, sem snúa að tækniþróun, aðgengi og nýsköpun, stefnumótun, stjórnsýslu og atvinnulífi.

En ég er að fara yfir nefndarálit hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem tengist þessari aðgerðaáætlun þannig að við höfum einhverja fótfestu fyrir því hvaðan málið kemur. Með frumvarpinu, svo að ég víki aftur að nefndarálitinu um það, er lagt til að komið verði á fót stuðningskerfi fyrir bókaútgefendur vegna kostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku þannig að heimilt verði, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að endurgreiða 25% kostnaðar við slíka útgáfu. Í því felst að bókaútgefendum yrði veittur tímabundinn stuðningur í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku og nemur endurgreiðslan 25% af kostnaði sem fellur til við útgáfu á Íslandi í öðrum löndum á EES-svæðinu innan EFTA eða í Færeyjum. Lagt er til að þriggja manna nefnd fjalli um beiðnir um endurgreiðslu sem berast skulu í síðasta lagi níu mánuðum eftir útgáfu bókar. Gert er ráð fyrir að stuðningskerfið gildi frá 1. janúar 2019 og verði tekið til endurskoðunar fyrir 31. desember 2023.

Bókaútgáfa er ein af mikilvægustu stoðum íslenskrar menningar og gildi hennar fyrir verndun og stuðning við íslenska tungu og eflingu læsis er óumdeilt.

Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar kemur fram að eitt af markmiðum hennar sé að afnema virðisaukaskatt á bækur. Þá kemur fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019–2023 að áformað sé að afnema virðisaukaskatt á bækur frá byrjun árs 2019. Það er því ljóst að frá því hefur verið horfið, þ.e. með virðisaukaskattinn, en í ljósi þess var ákveðið að setja á fót starfshóp innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem fékk það hlutverk að fara yfir hugsanlegar leiðir í þessum efnum. Starfshópnum var falið að skoða bæði beinar leiðir og aðrar sértækar aðgerðir sem jafna mætti við afnám virðisaukaskatts. Þannig voru skoðaðir kostir og gallar ýmissa leiða en niðurstaða starfshópsins var sú sem við erum að fara yfir hér, svokölluð stuðningsleið sem felst í endurgreiðslu á tilteknu hlutfalli kostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Helsta markmið frumvarpsins er að styðja við og efla útgáfu bóka á íslensku í því skyni að vernda íslenskt mál, sem á undir högg að sækja, ásamt því að efla læsi. Hinn 5. október sl. rituðu forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra undir viljayfirlýsingu um vitundarvakningu um mikilvægi íslensks máls ásamt fulltrúum Kennarasambands Íslands, Háskóla Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Samkvæmt yfirlýsingunni verður lögð áhersla á að finna víðtækan samstarfsgrundvöll til að vekja athygli og áhuga á íslensku, stuðla að virkri notkun tungumálsins og vinna að jákvæðara viðhorfi, ekki síst barna og unglinga, til íslenskrar tungu. Við þetta tilefni kom fram hjá mennta- og menningarmálaráðherra að samstarfið væri mikilvægt til að snúa vörn í sókn fyrir íslenska tungu og að dæmi um skref sem stigin yrðu á þessari vegferð væru aðgerðir til að styðja við útgáfu bóka á íslensku.

Sú leið sem lögð er til í þessu frumvarpi er talin árangursríkari en virðisaukaskattsleiðin sem lagt var upp með og skilvirkari og má horfa til fyrirmyndar í tímabundnum stuðningi við kvikmyndir og hljóðritun.

Þeim stuðningi við bókaútgáfu sem felst í frumvarpinu er ætlað að virka sem hvati fyrir bókaútgefendur. Velta bókaútgáfu hefur dregist saman og rekstrarstaða útgefenda versnað. Bókaútgáfa er ein af mikilvægustu stoðum íslenskrar menningar og gildi hennar fyrir verndun og stuðning við íslenska tungu og eflingu læsis er óumdeilt. Það er því meginmarkmið og í samræmi við lög og hlutverk ríkisins, samanber 1. mgr. 2. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu, að bregðast við þessari þróun og efla með þessum hætti íslenska tungu og stuðla að bættu læsi barna og unglinga. Gert er ráð fyrir því að ábati neytenda felist í verðlækkun og auknu úrvali, t.d. með aukinni útgáfu hljóð- og rafbóka.

Í kjölfar athugasemda í umsögnum um frumvarpið og umfjöllunar um málið með gestum hefur nefndin ákveðið að leggja til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Ég ætla nú að fara yfir þær eins og gerð er grein fyrir þeim í nefndarálitinu en vísa að öðru leyti í þskj. 724 þar sem þær breytingartillögur eru.

Lagt er til að við 2. gr. bætist ákvæði um að lögin eigi ekki við um útgáfu opinberra aðila á bókum. Lagðar eru til tvenns konar breytingar á 3. gr. Annars vegar er lögð til viðbót við skilgreiningu á hugtakinu bók þannig að ritraðir falli þar undir. Með ritröð er t.d. átt við bókaseríur sem innihalda bækur sem koma út reglulega undir sama nafni, númeraðar eða ónúmeraðar, t.d. bækur á borð við Lukku Láka, Tinna og Ástrík, og eiga slíkar ritraðir ekki að teljast til tímarita. Hins vegar er lögð til viðbót við skilgreiningu á því hvenær bók telst gefin út þannig að þar verði vísað til bókasafnskerfisins Gegnis. Þá eru lagðar til breytingar á 5. gr. Í fyrsta lagi um að unnt verði samkvæmt reglugerð að ákveða lægri fjárhæðarmörk en 1 millj. kr. enda er kostnaður við útgáfu tiltekinna tegunda bóka einatt undir þeirri fjárhæð — og þetta kom sérstaklega fram í umfjöllun um málið og umsögnum þeirra sem gefa út rafbækur; hér er verið að bregðast við því þannig að það verði þá hægt að lækka þessa fjárhæð í reglugerð. Í öðru lagi að við bætist ákvæði um að umsækjandi staðfesti greiðslur til höfunda eða rétthafa. Einnig leggur nefndin til að við 8. gr. bætist ný málsgrein um endurákvörðun endurgreiðslu samkvæmt lögunum. Slíkt ákvæði er í samræmi við ákvæði í lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Að lokum er lögð til orðalagsbreyting á 2. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 10. gr. og lagfæring á tilvísunum í 2. málslið 11. gr. frumvarpsins, reglugerðargrein.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins skal umsókn um endurgreiðslu berast í síðasta lagi níu mánuðum eftir útgáfu bókar. Þá er í 3. mgr. 8. gr. kveðið á um að vísa skuli umsókn frá ef umsókn um endurgreiðslu berst eftir að níu mánuðir eru liðnir frá útgáfu bókar. Nefndin bendir á að ekki er hægt að sjá alla hluti fyrir og geta atvik t.d. verið með þeim hætti að umsækjandi hafi verið í góðri trú um að umsókn væri skilað á réttum tíma en ytri atvik sem umsækjandi hefur ekki stjórn á geta leitt til þess að umsókn berst ekki innan lögbundins frests. Má þar t.d. nefna utanaðkomandi og ófyrirsjáanleg ytri atvik og eins mætti hugsa sér mistök sem varða móttöku umsóknar eða ferlið hjá nefndinni, t.d. ef það ferst fyrir að bóka erindi á réttum tíma þótt umsókn hafi sannanlega verið send áður en lögbundinn frestur rann út. Meta þarf aðstæður í hvert sinn en það getur verið verulega íþyngjandi fyrir umsækjanda ef umsókn er sjálfkrafa hafnað ef hún berst eftir lögbundinn frest vegna atvika sem umsækjandi sjálfur hefur ekki getað haft stjórn á.

Hér eru auðvitað mörg orð um þannig séð einfaldan hlut. Ef eitthvað kemur upp, sem er ófyrirséð og ekki í höndum umsækjanda, er sjálfsagt mál að bregðast við slíkum atvikum. Samkvæmt 11. gr. hefur ráðherra heimild til að setja reglur um framkvæmd laganna og er þar m.a. unnt að kveða á um frestun á endurgreiðslu sem kann að vera umfram fjárveitingar Alþingis. Nefndin bendir á nauðsyn þessa og vísar til 41. gr. stjórnarskrárinnar um að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.

Einnig má vísa til 1. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, um skilvirka og hagkvæma opinbera fjárstjórn ríkisfjármála. Fordæmi fyrir frestun endurgreiðslu er í lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, og lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, nr. 110/2016. Samkvæmt frumvarpinu munu lögin gilda til ársloka 2023 og skal ráðherra fyrir lok árs 2022 láta gera úttekt á árangri þess stuðnings sem felst í frumvarpinu. Nefndin telur rétt að sömuleiðis verði farið yfir það hvort setja eigi þak á endurgreiðslur fyrir einstakt verk.

Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson ritar undir álit þetta með fyrirvara og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum framangreindu breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali, eins og ég nefndi hér áðan. Þingskjalið ber númerið 724 og fylgir þessu máli sem hefur málsnúmerið 176 um stuðning við útgáfu bóka á íslensku.

Undir álit þetta rita á Alþingi 12. desember 2018 hv. þingmenn Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Willum Þór Þórsson framsögumaður, Guðmundur Andri Thorsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Jón Steindór Valdimarsson og gerir hann það með fyrirvara.