149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[19:08]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það var sannarlega við því að búast að þessar umræður gætu orðið svolítið skemmtilegar og hv. samþingmenn mínir bregðast ekki því trausti sem ég lagði á þá um að efna til skemmtilegrar umræðu. Sjálfsagt eru bækur aldrei of margar og það er engin vá fyrir dyrum þótt menn eigi fulla kjallara af bókum eða að það séu gefnar út margar bækur, alls ekki. Ég held að á meðan Íslendingar og svo sem allir vilja kaupa bækur, hvort sem það er í hefðbundnu formi eða einhvers konar nýjum skeljum eða umbúðum utan um hugverkin, þá er ekkert að því. Það má ekki skilja mig þannig að ég væri á því að það ættu að vera kannski fjórar, fimm ríkisbækur sem væru gefnar út á ári og það væri bara gott í lýðinn. Alls ekki.

Kjarninn í mínu máli er fyrst og fremst sá að það séu til góðar bækur, þær séu aðgengilegar og við hugum að því að það séu örugglega til bækur á ákveðnum sviðum, og nú veit ég að menn geta deilt um hvaða svið það eru, en ég horfi kannski fyrst og fremst samt á skólakerfið. Ef það eru ekki til góðar bækur, kennslubækur og kennsluefni á íslensku, sem maður elst upp við þá held ég að sé miklu meiri hætta á að fólk geti ekki, vilji ekki, lesa sér til ánægju og yndis og til fræðslu þegar það fullorðnast. Það er eiginlega kjarninn í því sem ég er að reyna að segja.