149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[10:39]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að við í fjárlaganefnd séum einhuga um að reyna að gera betur ár hvert í sambandi við opinber fjármál, eins og fram kom í umræðunni í gær. Nú er þetta í fyrsta sinn búið að ganga í gegn frá upphafi til enda, þ.e. frá ríkisfjármálastefnu til fjárlaga með sömu ríkisstjórn innan borðs. Við erum alltaf á leið í rétta átt, en auðvitað þurfum við að gera betur.

Eins og hér hefur komið fram eru frávikin lítil, þau eru 0,7% af frumútgjöldum. Þau voru lengi vel í kringum 5%, þannig að ég held að við séum á réttri leið. Ég er ekki sammála því að hér sé allt fyrirséð sem sett er fram. Við tókum m.a. inn það sem við töldum klárlega eiga heima í varasjóðnum, sem var 25 millj. kr. framlag til Þjóðleikhússins og tilheyrði launaliðum. Við erum á réttri leið en auðvitað má alltaf gera betur og það ætlum við okkur að gera.