149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:16]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að lýsa furðu minni og vonbrigðum með þá ákvörðun forseta að fulltrúi tveggja óháðra þingmanna utan flokka sem hafa með sér samstarf fái ekki úthlutað svo mikið sem einni mínútu í umræðum dagsins nema þá í andsvörum. Af hálfu skrifstofu Alþingis var okkur boðið að halda fimm mínútna ræðu sem við undum glaðir við, en svo bregður við að skömmu áður en umræðan átti að hefjast er okkur tilkynnt sú ákvörðun forseta að fulltrúi okkar, sá sem hér stendur, yrði ekki á mælendaskrá. Ég áfellist engan í þessu efni og alls ekki skrifstofu Alþingis. Ég bar þá von í brjósti að forseti vildi vera forseti allra þingmanna og greiddi honum því atkvæði mitt í forsetakjöri. En ég hlýt að viðurkenna að ákvörðun forseta í dag, auk ýmislegs annars sem við hefur borið að undanförnu, hefur ekki styrkt þá trú mína.

Orð forseta í ræðu hans hér á undan, um vinsemd og virðingu í samskiptum þingmanna, vöktu athygli mína og þykist ég átta mig vel á innihaldi þeirra.