149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin. Það er bagalegt að skýrslan um þau mál hafi ekki komið fram fyrr vegna þess að ég held að það hljóti að vera ein af meginforsendum fyrir því að hér náist kjarasamningar sem allir sætta sig við, að vaxtakjör og verðbætur verði með einhverjum skikkanlegum hætti.

Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra talaði líka um aðgerðir gegn kennitöluflakki. Það flaug fyrir í síðustu viku að ríkisstjórnin væri með í undirbúningi að leggja fram frumvarp um varnir gegn kennitöluflakki í febrúar nk. Svo vill til að Miðflokkurinn lagði fram frumvarp um kennitöluflakk á haustmánuðum og spurningin er því: Er ríkisstjórnin að búa til einhverja vægari útgáfu af því frumvarpi? Vill hún ekki nýta sér að þarna er búið að vinna þó nokkurt starf og flýta fyrir því að hægt sé að taka á því vandamáli sem kennitöluflakk vissulega er?