149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:18]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað á maður alltaf að vera jákvæður og maður á að umvefja sig jákvæðri orku. Það er mjög gott og alveg rétt hjá hv. þingmanni.

Það er samt svo að 12.000 fjölskyldur hafa dottið út úr barnabótakerfinu síðustu ár.

Það er samt svo að persónuafsláttur hækkaði um 500 kr. Það er hægt að kaupa sér pylsu fyrir 500 kr., sem er náttúrlega ágætt og sjálfsagt að vera jákvæður í garð þess að fá sér pylsu, en ég tel þó að það sé ekki nóg. Það er gott að sjá viðleitni til að bæta kjör þeirra sem lægri hafa launin en augljóslega vantar mikið upp á að nóg sé að gert.