149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Árangur á sviði samgöngumála veltur á því að menn líti til langtímaáhrifa þeirra ákvarðana sem eru teknar og heildaráhrifanna sem hefur því miður ekki verið gert að nógu miklu leyti. Nefni ég þar sem dæmi það að menn meti kostnaðinn af slysum sem hægt er að forðast með því að ráðast í tilteknar samgöngubætur og dragi það þá í raun frá kostnaðinum sem menn reikna við framkvæmdina. Það má alveg skoða, eins og menn hafa verið að velta fyrir sér í nefndinni, ólíkar gjaldtökuleiðir. En það sem ég hef alltaf lagt áherslu á í þeim efnum er að það verði þá ekki til að hækka heildarálögur á almenning, því að eins og sakir standa greiða vegfarendur gríðarlega mikið í ríkissjóð fyrir það að fá að komast leiðar sinnar. Það hefur verið rökstutt með því að það kosti að sjálfsögðu sitt að halda uppi samgöngukerfinu. En þetta hefur ekki skilað sér í mörg ár og það er vissulega ekki nýtilkomið, ég skal viðurkenna það. Í mörg ár hefur það ekki skilað sér sem skyldi í það sem til var ætlast, í samgöngubætur. Þar þurfa því að eiga sér stað lækkanir á móti en ekki áframhaldandi hækkanir eins og birtast með sífellt nýjum gjaldauppfinningum, eins og þessum svokallaða kolefnisskatti, kolefnisgjaldi eða hvað þetta nú heitir, sem ríkisstjórnin fann upp til þess að auka enn álögur á fólk sem þarf að komast leiðar sinnar.

Varðandi seinni spurninguna, eldri borgara og réttindakerfið, kalla ég þetta réttindakerfi þó að vissulega sé það rétt sem hv. þingmaður kemur inn á, að það hafi verið notað sem tryggingakerfi að miklu leyti, einfaldlega vegna þess að fjármagnið leyfði ekki annað. Ég tel hins vegar víst að þeir sem greiða í lífeyrissjóð telji sig eigendur þess fjármagns sem þeir greiða í lífeyrissjóðina og, eins og ég nefndi áðan, þó að kostnaður hafi ekki staðið undir því (Forseti hringir.) sem menn hefðu kannski viljað varðandi þetta réttindakerfi — ég verð að fá að klára þetta næst, virðulegur forseti.