149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæta ræðu. Það eru tvö atriði sem ég myndi vilja koma inn á í fyrra andsvari og snúa bæði að stefnu flokks hæstv. ráðherra.

Annars vegar nefndi hún í ræðu sinni að hvergi yrði hvikað frá vörninni um EES-samninginn. Það leiðir auðvitað strax hugann að þeirri áskorun sem við stöndum frammi fyrir núna varðandi innleiðingu á þriðja orkupakkanum. Það hlyti augljóslega að stefna EES-samningnum í töluverða óvissu ef við myndum heykjast á innleiðingunni, enda höfum við áður undirgengist skuldbindingu um að orkupakkar Evrópusambandsins séu hluti af sameiginlegu regluverki Evrópska efnahagssvæðisins og höfum raunar þegar samþykkt að innleiða þann þriðja.

Í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur enn ekki haft hugrekki til þess að leggja þriðja orkupakkann fyrir þingið til úrlausnar og í ljósi þess hversu ólíkar skoðanir virðast vera uppi, innan allra stjórnarflokkanna mætti segja en ekki hvað síst innan flokks hæstv. ráðherra, vil ég spyrja: Styður flokkur ráðherra innleiðingu þriðja orkupakkans? Getur ráðherra heitið því að þriðji orkupakkinn muni fá framgang í þinginu?

Í öðru lagi eru það skattamál. Það vakti talsverða ólgu innan flokks hæstv. ráðherra þegar umræða um kolefnisgjöld hófst fyrir fáeinum misserum. Nú er ríkisstjórn hæstv. ráðherra búin að innleiða þau hækkunaráform að mestu en bætir um betur og hyggst skattleggja umferð enn frekar með álagningu veggjalda að fjárhæð 5–10 milljarða á ári, að sagt er, en hugmyndir eru enn mjög óljósar.

Enn og aftur virðast vera uppi mjög ólíkar skoðanir, jafnvel innan flokks hæstv. ráðherra. Er stuðningur innan (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar og er stuðningur innan flokks hæstv. ráðherra við áform um veggjöld og aukna skattheimtu sem því fylgir? Eru þessir skattar öðrum gæðum gæddir en skattar á borð við kolefnisgjöld?