149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:19]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þriðji orkupakkinn hefur ekki farið í gegnum ríkisstjórn og hann hefur hvorki farið í gegnum minn þingflokk né hina stjórnarflokkana. Þar af leiðandi get ég ekki sagt hverjir ætli að vera samþykkir því að hann fari þar í gegn og hverjir ekki. Þetta mál hefur þurft frekari umræðu. Þriðji orkupakkinn er orðinn níu eða tíu ára gamall og hefur í rauninni ekki fengið umræðu í öll þau ár. En núna er sú umræða að eiga sér stað. Hann hefur þurft frekari umræðu og það hefur þurft frekari upplýsingar um það mál. Það truflar mig í rauninni mjög lítið. Ég hef áður sagt að okkur liggur ekki á. Málið er ekki einu sinni komið inn í þingið. Það er ekki einu sinni komið á tíma samkvæmt þingmálaskrá. Það að stjórnmálamenn þurfi að svara gagnrýnum spurningum um einhverja innleiðingu er ekkert óeðlilegt. Það er það sem ég hef að segja um þriðja orkupakkann.

Varðandi veggjöldin er útfærslunni ekki lokið. Það er ástæðan fyrir því að þetta var ekki klárað fyrir jól. Útfærslunni er ekki lokið. Ýmsar útfærslur (Forseti hringir.) eru mögulegar. Ég er ekki á móti því að þeir borgi sem nota. Ég er ekki á móti því að þetta sé liður í því að endurskoða fjármögnunarumhverfi fyrir uppbyggingu vegaframkvæmda og segi þá líka: Ef við viljum fá miklu meiri fjármuni í vegakerfið þarf líka einhvers staðar að finna þá.