149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég biðst enn og aftur velvirðingar á frúarheitinu sem ég gaf áðan, en það má kannski segja að við séum öll konur inn við beinið. Það er ágætt.

Það er að mörgu að hyggja og svara þegar hv. þm. Jón Gunnarsson kemur hingað upp. Já, ég ætla ekki að fela það, veggjöld voru til umræðu og það var ekki búið að ýta þeim út af borðinu, en þau voru ekki hugsuð í því formi sem hv. þingmaður hefur nú verið að kynna, síður en svo. Ekki er gengið hreint til verks þegar kemur að töku veggjalda. Eins og hugmyndirnar eru núna á borðinu eru þetta ekkert annað en stórfelldar skattahækkanir á suðvesturhornið og þær eru í boði Sjálfstæðisflokksins. Ég hvet hv. þingmann til að ráðfæra sig við samflokksmann sinn, Óla Björn Kárason, hvað þetta varðar, sem varar sérstaklega við því að fara í almennar skattahækkanir, eins og verið er að gefa til kynna að farið verði í.

Og þar fyrir utan, og það kemur mér líka spánskt fyrir sjónir, er ekki lengur margt í samgönguáætlun varðandi höfuðborgarsvæðið. Þær stórframkvæmdir sem við þurfum að fá hér á höfuðborgarsvæðið eru ekki í samgönguáætlun, fyrir utan náttúrlega almenningssamgöngurnar sem hv. þingmaður hefur aldrei sýnt mikinn áhuga frekar en helmingurinn af Sjálfstæðisflokknum. Verið er að þrýsta suðvesturhorninu inn í stórfellda gjaldtöku með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar án þess að við eigum að fá tækifæri til að ræða eitt eða neitt.

Talað er um samráð við þingið korteri fyrir jól, en ég spyr: Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Það sorglega er að með þessum vinnubrögðum er verið að eyðileggja nefnilega ágætar hugmyndir í mörgum málum sem tengjast samgöngumálum. Ég er alveg reiðubúin að ræða það, og hef marglýst því yfir, að menn greiði fyrir notkun (Forseti hringir.) og að menn greiði líka í samræmi við það sem við mengum. Við verðum að fara að taka ríkara tillit til þátta eins og umhverfismála. Það kemur hvergi fram hér. Umhverfismálin eru enn og aftur sett til hliðar af hálfu Sjálfstæðisflokksins.