149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:42]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg með ólíkindum að hlusta á hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur tala hér, fyrrverandi varaformann Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi þingmann og ráðherra fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins til margra ára, hv. þingmann sem ég starfaði með í flokknum í mörg ár. Henni virðist vera orðið eitthvert keppikefli umfram allt annað að höggva í Sjálfstæðisflokkinn og skrumskæla í málflutningi sínum þau markmið sem menn setja fram. Málflutningur hennar er í engu samræmi við þau markmið sem við höfum sett fram, þau markmið sem við höfum í vinnu okkar í að efla samgöngumál, draga úr slysum og greiða fyrir þeim leiðum sem nauðsynlegar eru í landinu til að geta m.a. tekið þátt í þeirri stórkostlegu aukningu ferðamanna sem koma til landsins. Voru Hvalfjarðargöng skattahækkanir? Var hv. þingmaður kannski í hópi þeirra 70% landsmanna sem á sínum tíma voru á móti byggingu Hvalfjarðarganga? Ég þekki það ekki. En ég held að í dag, ef það yrði skoðað hvert viðhorf manna væri til Hvalfjarðarganga, væri það óumdeilt mjög jákvætt.

Það er ekki verið að fara í auknar skattahækkanir á suðvesturhorninu. Verið er að fara í gjaldtöku til að flýta framkvæmdum, til að tryggja umferðaröryggi, til að draga úr slysum á slysamestu köflum í vegakerfi okkar fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Verið er að reyna að ná til þátttöku alls þess stóra og fjölmenna ferðamannahóps sem kemur hingað til að taka þessi stóru skref. Það er skýrt tekið fram, eins og ég kom inn á áðan, í drögum að nefndaráliti að gjaldtakan verði ekki umfram þann ávinning (Forseti hringir.) sem af henni fæst. Þar má taka tillit til minnkandi mengunar sem af þessu hlýst, tímasparnaðar, eldsneytissparnaðar og alls þess jákvæða sem fæst við það að stíga stórstíg skref.