149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka árnaðaróskir út af syninum en hann verður bara að fá að vera eins og hann er, hann er frábær eins og hann er og á vonandi ekki að líða fyrir það að eiga þá foreldra sem hann á, hann er eins og hann er og allt íslenska landsliðið er stórkostlegt. (Gripið fram í.) Ég hlakka til næstu fimm ára og að sjá hvernig þeir fara áfram. Ég veit að góður hugur fylgdi þessum óskum.

Síðan vil ég bara þakka hv. þingmanni fyrir að hafa dregið fram nákvæmlega það sem við í Viðreisn viljum. Við viljum markaðsleið í sjávarútvegi. Það er rétt að draga það líka fram að við erum náttúrlega femínistaflokkur og erum ófeimin að segja það, segja að við stöndum fyrir jafnrétti og femínisma. Það má kannski segja að á því korteri sem við vorum í ríkisstjórn komum við í gegn jafnlaunavottun, sem skiptir okkur Íslendinga gríðarlega miklu máli.

Hvað gerðum við fleira? Hv. þingmaður segir að í sjávarútvegi höfum við ekki náð fram markaðslausnum. Við settum fram sáttanefnd í sjávarútvegi sem mér fannst allir flokkar, nema kannski einn, vera tiltölulega ánægðir með, þeir voru af einlægni í þeirri vinnu, allir flokkar nema kannski stærsti flokkurinn á þingi. Ég vil einmitt hrósa Vinstri grænum fyrir að hafa tekið af einlægni og einurð þátt í því samstarfi. Ég er enn þeirrar skoðunar að við getum náð aukinni sátt um sjávarútveginn.

Við fáum oft að heyra að við séum alltaf að tala um ESB og gjaldmiðilinn. Já, af því að það er risahagsmunamál fyrir þjóðina að breyta um gjaldmiðil. Við erum með hæstu vexti í Evrópu. Við þurfum að greiða allt að því þrisvar sinnum meira fyrir íbúð á Íslandi en í útlöndum. Fjögurra manna fjölskylda greiðir þrisvar sinnum hærri vexti hér en þar. Hún greiðir allt að því 70.000 kr. meira fyrir matarkörfuna hér en úti. Það er hægt að laga þetta og það er hægt að breyta landbúnaðarkerfinu með því að styrkja bændur og fjölskyldur í landinu. (Forseti hringir.) Við gerðum það ágætlega með einu fordæmi og það var þegar við breyttum stefnunni varðandi grænmetið. Um leið og við afnámum hindranir jukum við beina styrki til bænda. Það er hægt að fara þá leið líka og þar með lækkum við kostnaðinn við matarkörfuna og aukum kaupmátt íslenskra fjölskyldna.