149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Við skulum hafa það í huga að einu sinni hefur verið send aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Það var gert í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. (Gripið fram í.) Sú umsókn var send og ég held miklu frekar að flokkurinn ætti að vera nokkuð stoltur af því að hafa reynt að horfa til framtíðar og það er það sem við í Viðreisn erum að tala um. Við viljum horfa til framtíðar og við munum halda áfram að tala fyrir þeim málum sem við teljum að skipti landsmenn alla máli, ekki síst launafólk, hinn venjulega launamann sem við vitum að er í mjög ójafnri aðstöðu miðað við fjármagnseigendur hér á landi. Hinn venjulegi launamaður situr uppi með krónuna meðan stóreignafólk og fjármagnseigendur geta fært sig mjög auðveldlega yfir landamæri og leikið sér að þessu. Það er ójöfn staða og ég hefði haldið að flokkur sem telur sig vera baráttuafl fyrir félagslegan stöðugleika, félagslegt réttlæti, myndi einmitt hafa einhverja skoðun á þessu og koma jafnvel með okkur í þá baráttu að reyna að skipta um gjaldmiðil. Við erum með gjaldmiðil sem eykur misrétti í landinu. Ég ítreka að án þessara róttæku umbreytinga í gjaldmiðils- og peningamálum munum við Íslendingar ekki ná markmiðum okkar um varanlegan efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Það skiptir gríðarlega miklu máli.

Ég vil líka geta þess og undirstrika að sú ríkisstjórn sem sprakk á þarsíðasta ári sprakk vegna ákveðinna prinsippa, m.a. var flokkur líka með okkur í ríkisstjórn, Björt framtíð, sem sleit því stjórnarsamstarfi sem er hægt að skilja mjög vel, að láta ekki bjóða sér allt sem kom frá Sjálfstæðisflokknum. Það verða menn að horfast í augu við. Núna horfum við upp á ríkisstjórn þar sem m.a. Vinstri græn bakka upp ýmis mál. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hvalveiðimálin fara á næstunni. Það er hægt að benda á ýmis önnur mál (Forseti hringir.) sem ég held að Vinstri grænum hljóti líka að líða frekar illa undir. En við sjáum hvað setur. Framtíðin er handan við hornið og það er um að gera fyrir okkur að tala um þau mál sem á endanum skipta mestu máli fyrir þjóðina. Við í Viðreisn teljum það m.a. vera gjaldmiðilsmálin og Evrópusambandið.