149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[19:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og jákvæð orð í garð ríkisstjórnarinnar. Ég held að það sé mikilvægt að hafa þetta viðhorf, að það sé sama hvaðan gott kemur, maður geti stutt það hugnist manni svo. Ég held að það sé sameiginlegt markmið okkar allra, ég tek undir það, að útrýma fátækt eins og oft hefur komið fram. Við nálgumst hlutina með ólíkum hætti. Við erum ekki alltaf sammála um leiðir. Ég held að vefurinn sem var opnaður nýlega, þessi risastóri gagnagrunnur sem var opnaður undir forystu forsætisráðherra á föstudaginn, sé tæki sem hjálpar okkur til að nálgast þennan hóp enn frekar en verið hefur hingað til. Því er ekki að neita að ekki hafa verið til samantekin gögn þó að við vitum auðvitað um ákveðna hópa. Ég held að þetta sé eitt af því sem getur hjálpað til og leitt okkur áfram.

Eins og hv. þingmaður nefndi eru kjarasamningar lausir. Það er beðið eftir ákveðnu útspili, hvort sem það heitir skattbreyting eða annað. Síðast í dag sá ég að ASÍ leggur til allt aðra leið en t.d. VR og Efling. Það eru kannski ekki allir alltaf á sama máli, þeir sem við eigum samtal við, um hvaða leiðir þeir vilja fara til að takast á við verkefnið. En ég tek undir með hv. þingmanni að ég held að við höfum lagt töluvert mikið af mörkum eins og hún nefndi, m.a. með greiðsluþátttöku og ýmsu fleiru sem hefur hjálpað til við að styðja við þá hópa sem hafa minna úr að moða. Ég trúi því að við séum á réttri leið en saman getum við gert betur.