149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:06]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég vil byrja á því að geta þess og það er mikilvægt að fram komi að landlæknir hefur sagt, og mig minnir að það komi fram í hluta af úttektinni, að Landspítalinn sé mjög vel rekinn, bara svo það komi skýrt fram. Helstu ástæðurnar fyrir þeim mikla vanda sem nú er uppi eru skortur á mönnun og að fráflæði frá bráðadeild er ekki tryggt. Fram kom á fundi velferðarnefndar um hlutaúttektina að einn helsti orsakavaldur þess mikla bráðavanda sem við erum nú að fást við sé aðgerðaleysi fyrri ríkisstjórna. Staðan í dag hefur í raun verið fyrirséð um langt skeið. Við höfum vitað af öldrun þjóðarinnar í sex áratugi, talað er um 60+ ár, en við erum samt sem áður engan veginn undirbúin undir það. Fyrri ríkisstjórnir hafa meira að segja reynt sitt ýtrasta til að reka heilbrigðiskerfið á lágmarksframlögum. Aukin þörf á heilbrigðisþjónustu í bland við vanfjármögnun um árabil er aðalástæðan fyrir vandanum sem nú blasir við. Lausnirnar felast m.a. í því að opna fleiri hjúkrunarrými og efla heimahjúkrun og heimaþjónustu. Nú ber hæstv. heilbrigðisráðherra að bregðast hratt og skjótt við og mér skilst að hún sé að því.

En hvers vegna var ekki löngu farið af stað í þessar aðgerðir? Hvers vegna erum við aldrei undirbúin? Hvers vegna erum við alltaf að bregðast við? Er það vanhæfni eða pólitísk ákvörðun? Einnig hefur verið varað við mönnunarvanda í mörg ár sem einungis nýlega er farið að viðurkenna, en 24% hjúkrunarfræðinga á vinnualdri vinna ekki við hjúkrun. Vandinn er að miklu leyti ósanngjarn vinnutími og ósanngjörn kjör. Hjúkrunarfræðingar eru nauðsynlegir heilbrigðiskerfinu og án þeirra gengur þetta dæmi ekki upp. Það er mjög skiljanlegt að þeir sæki í önnur störf enda er þessi stétt með 12% lægri laun en sambærilegar stéttir. Það er óásættanleg staða sem okkur ber að leiðrétta.

Mín helsta gagnrýni í þessum málum er hversu skammsýn pólitíkin virðist vera. Það er algjör skortur á langtímahugsun þar sem flokkar og ríkisstjórnir hugsa bara eitt kjörtímabil í einu. Skammtímalausnir eru allsráðandi svo lengi sem hægt er að sýna fram á að verið sé að gera eitthvert smotterí núna til að auka líkur á endurkjöri næst. Það vekur þá von í brjósti að bráðum megi búast við framlagningu nýrrar heilbrigðisstefnu af hálfu heilbrigðisráðherra. Ég vona svo sannarlega að um hana geti myndast þverpólitísk sátt svo við getum unnið af heilum hug að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

Lögum þennan bráðavanda núna en lögum pólitíkina í leiðinni til að koma í veg fyrir framtíðarslys.