149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:25]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir þessa umræðu. Eins vil ég þakka svör ráðherra við fyrirspurnum hennar. Ég er sannfærður um að hæstv. heilbrigðisráðherra er að gera sitt besta, nákvæmlega eins og starfsfólk á Landspítalanum og í heilbrigðiskerfinu öllu. Við verðum að muna þrátt fyrir allt þegar þessi umræða fer fram að við rekum hér eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi. Við skulum ekki gleyma því þó að margt megi betur fara. Við erum sammála um það.

Ég er á svolítið svipuðum nótum og þeir félagar mínir sem hér hafa talað, að það er ekki endilega víst að aukið fjármagn leysi allan þann vanda sem við er að etja, hvorki á Landspítalanum né öðrum sjúkrahúsum. Á þessu ári eru lagðir 240 milljarðar í heilbrigðisþjónustuna. Þar af fara 70 milljarðar í Landspítalann. Árið 2013 voru það 40 milljarðar. Það er því gríðarlegt stökk, en mér finnst að umræðan þróist lítið þrátt fyrir að við leggjum gríðarlega miklar fjárhæðir inn í reksturinn á hverju ári. Ég held að við verðum, eins og hér hefur komið mjög glögglega fram og ég hef haldið fram í velferðarnefnd þingsins í samráði við forystumenn Landspítalans, að leita þurfi nýrra leiða, sérstaklega í öldrunarmálunum, eins og fram kom hjá hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni rétt áðan.

Ég held að þrátt fyrir þörf á hjúkrunarrýmum í augnablikinu megum við ekki láta það byrgja okkur sýn þegar litið er til framtíðar. Það eru svo margar leiðir, heilsuefling, heimahjúkrun og fjöldamargar aðrar leiðir, sem við þurfum að nýta. Danir hættu að horfa í steinsteypu til að leysa heilbrigðisvandamál. Þeir fóru heilsueflingarleiðina. Ég held að það sé það sem við Íslendingar eigum að gera. Þess vegna tek ég undir með félögum mínum sem ræddu það áðan, að við þurfum að athuga hvort fjármagninu sé vel varið og eins hvort við séum ekki (Forseti hringir.) komin á þá skoðun að fara nýjar leiðir.