149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í morgun hlustaði ég á Í bítið hjá þeim Heimi og Gulla eins og ég geri svo gjarnan þegar ég er að taka mig til á leið í vinnu. Gestur þeirra að þessu sinni var Helgi Gunnarsson, prófessor í félagsfræði og helsti sérfræðingur okkar í afbrotafræði. Hann hefur verið að vinna að skýrslu með norrænum kollegum sínum um fíkniefnasölu á netinu. Þeir hafa verið að safna saman gögnum frá því seint á árinu 2017 fram til ársins 2018. Tilgangurinn var í rauninni að reyna að komast að því hversu umfangsmikil slík sala er. Hvar fer salan fram? Þeir vita um neysluna, en markaðurinn hefur ekki verið þeim eins opinn.

Við höfum oft talað um og vitum um þann mikla vanda sem steðjar að unga fólkinu okkar og öllum öðrum sem hafa ánetjast fíkniefnum. Ópíóíðafaraldurinn hefur valdið tugum ungmenna ótímabærum dauða og við förum ekki varhluta af neinu slíku. En ég verð að segja að það sem vakti mesta furðu mína er hversu ofboðslega umfangsmikil fíkniefnasala er á netinu. Þeir fundu 30 lokaða hópa og þegar þeir komust inn í þá voru þar tugir og upp í mörg þúsund einstaklingar á því sem hann sagði að væri eiginlega markaðstorg. Þarna gat að líta opinn markað af öllum þeim fíkniefnum sem nöfnum tjáir að nefna og við getum látið okkur detta í hug, eins og þessi ágæti maður nefndi. Nú er verið að uppfæra þetta, tækniþróunin er gríðarleg, þeir eru með öpp, þeir eru með hvaðeina til þess að reyna að ná í unga fólkið okkar. Þess vegna segi ég: Það er okkar að grípa tækifærið strax, reyna að vera með einhverjar forvarnir. Við vitum hvað er í gangi, við vitum hvar salan fer aðallega fram og við eigum að geta tekið betur á því að svona lagað gerist ekki, a.m.k. ekki í þeim hryllilega mæli sem raun ber vitni samkvæmt skýrslunni.