149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þann 15. október sl. átti ég orðastað við hæstv. landbúnaðarráðherra um innflutning á fersku kjöti í tilefni af nýjum dómi Hæstaréttar um að bann við innflutningi á fersku kjöti frá aðilum innan EES-svæðisins væri ólögmætt.

Sá dómur kom nú reyndar engum á óvart, nema hugsanlega einum eða tveimur fyrrverandi landbúnaðarráðherrum. Hæstv. landbúnaðarráðherra sagði m.a., með leyfi forseta, þegar ég spurði um þessi atriði:

„Þá er alveg rétt að þetta hefur legið fyrir í allnokkurn tíma, stefna ríkisstjórnar 2009–2013 og sömuleiðis frá 2013–2016 var sú að halda uppi vörnum í málinu og það var á þeim tíma ekkert gert til undirbúnings annarri niðurstöðu en þeirri að lögin héldu. Nú blasir niðurstaðan við og þetta er flókið úrlausnarefni. Það er það.“

Enn fremur sagði hæstv. ráðherra Kristján Þór Júlíusson, með leyfi forseta:

„Í mínum huga snýst málið núna númer eitt, tvö og þrjú um það að fá viðbótartryggingar gagnvart salmonellusýkingum sem nágrannaríki okkar hafa fengið. Það mun taka einhvern tíma að ná því. Sömuleiðis að reisa varnir gagnvart kampýlóbaktersmiti. Bæði þessara mála eru í vinnslu.“

Í skriflegu svari við fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra um kostnað vegna banns við innflutningi á fersku kjöti kom fram að beinn útlagður kostnaður vegna málaferla væri rúmar 47 millj. kr. Í svarinu kemur einnig fram að Eftirlitsstofnun EFTA hafi fyrr í þessum mánuði samþykkt umsókn íslenskra stjórnvalda um að þeim verði heimilt að setja sérstakar viðbótartryggingar vegna salmonellu í kjúklingakjöti, hænueggjum og kalkúnakjöti.

Herra forseti. Allt þetta mál hefur verið með miklum eindæmum af hálfu íslenskra stjórnvalda, neytendum til tjóns (Forseti hringir.) og leitt til ónauðsynlegra útgjalda og fyrirhafnar af hálfu ríkisins. (Forseti hringir.) Nú er mál að linni og krefjast verður þess að hæstv. landbúnaðarráðherra (Forseti hringir.) leggi fram án tafar frumvarp til að kippa þessu ólögmæta ástand í rétt horf.