149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Tillögur átakshóps ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum líta vel út. Við fögnum þeirri samstöðu sem virðist hafa náðst um aðgerðir. Þær fara í mörgu saman við aðgerðaáætlun Samfylkingarinnar í málaflokknum sem við lögðum fram í haust og hefur verið til meðferðar í hv. velferðarnefnd þingsins frá því í nóvember. Viðbrögð aðila vinnumarkaðarins hafa verið jákvæð og vonandi leiða tillögurnar til þess að bæta líf og lífskjör almennings. Það má sérstaklega fagna þeirri réttarbót sem til stendur að gera varðandi leigjendur.

Mig langar þó að nefna nokkur umhugsunarverð atriði. Í tillögum átakshópsins er ekkert að finna um fyrstu kaup, en í tillögu okkar í Samfylkingunni er talað um startlán að norskri fyrirmynd með það að markmiði að auðvelda ungu fólki og barnafjölskyldum fyrstu kaup á húsnæði, fólki með lágar en öruggar tekjur sem fær ekki nægjanleg lán frá hefðbundnum bönkum. Slík lán hafa gefist vel í Noregi. Í þeim tillögum er heldur ekkert að finna um vaxtabætur eða leigubætur sem skipta gríðarlegu máli, sérstaklega fyrir lág- og meðaltekjuhópa. Það er ekkert að finna um fjármögnun, en margar tillögur snúa að sveitarfélögum og er ástæða til að spyrja hvort fjármagn fylgi skyldum.

Borgarlína er áberandi í tillögunum enda eru stórbættar almenningssamgöngur risastórt kjaramál og líka umhverfismál, en samkvæmt samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar á að leggja til brotabrot af því fjármagni sem þarf til uppbyggingar borgarlínu. Einhver kynni að segja að hinar ágætu tillögur átakshópsins séu eins konar ófjármagnaður óskalisti.