149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi.

274. mál
[16:07]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir hans ágæta innlegg og hlýleg orð í garð þessarar tillögu. Allt sem bætir umgjörð þessa málaflokks og viðmót gagnvart innflytjendum er okkur auðvitað að skapi. Með tillögunni leggjum við hins vegar áherslu á nauðsyn þess að móta stefnu í málaflokknum í heild sinni. Við lítum kannski svo á að opnun innflytjendastofu, samkvæmt þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður vísaði til, væri eins og eitt tannhjól í stóru gangverki sem við höfum ekki enn mótað eða búið til og sem að okkar áliti þyrfti að vera kannski forsendan.

Allt bendir til þess að mikil þörf sé fyrir þjónustu af því tagi sem þingmaðurinn bendir á og ályktunin gengur út á. Við erum ekki algjörlega með autt blað því að við eigum Fjölmenningarsetur á Ísafirði sem hefur unnið gott starf en hefur unnið við mikil fjárhagsleg þrengsli og vildi vinna meira og betra starf og gæti gert það. Það breytir ekki því að á þessu svæði hér þar sem þó flestir innflytjendanna búa er mikil þörf fyrir innflytjendastofuna og þær tvær stofnanir sem geta verið ein. Þær eiga auðvitað að vinna náið saman.