149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu.

147. mál
[17:01]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég ítreka það bara að skilningur hv. þingmanns er réttur og ég reyni að hafa það almennt að leiðarljósi að vera tilbúinn til að skoða gagnrýni og ný viðhorf er varða þingmál. Ekki lét ég mér detta í hug að ætla að keyra málið í gegn án umræðu og þvinga þingmenn til að greiða atkvæði með tilteknum hætti. Það er fjarri mér, forseti. Vonandi fær þetta mál sem besta umræðu og við fáum góða rökræðu um það og gerum eftir atvikum, ef á þarf að halda, á því þær breytingar sem eru til þess fallnar að gera löggjöfina sem best úr garði. Alþingi þarf á því að halda, og kannski núna meira en nokkru sinni, að sýna að það vandi til verka, virði lög, virði starfsreglur, virði aðferðir við setningu laga og sýni að það vinni hlutina vel út frá rökum, út frá staðreyndum; taki mið af rökum, eins og hv. þingmaður benti á hér, en sé ekki bara vettvangur til þess að afgreiða fyrir fram ákveðnar tillögur og þvinga alþingismenn til þess að greiða atkvæði með tilteknum hætti. Vonandi verður vinnan við þetta mál sem allra best og gerir að verkum að það verði sem best úr garði gert.