149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu.

147. mál
[17:09]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Eins og hv. þingmaður gat um styð ég áformaða tillögu hans, tel hana mjög tímabæra og raunar brýna. Það var áhugavert að heyra þingmanninn rekja það hvernig menn sæju fyrir sér að eðlilegt væri að sýna kirkjugörðum virðingu og hversu hrópleg mótsögn birtist í þeim orðum sem hv. þingmaður fór með og svo því sem við horfum upp á hérna út um gluggann.

Ekki alls fyrir löngu var ég staddur í Lundúnum og gekk þar fram á almenningsgarð, mjög fallegan og notalegan garð. Það sem mér þótti sérkennilegt við garðinn var að þar sneru mörg húsanna baki í garðinn. Það var eins og garðurinn hefði ekki verið skipulagður sem almenningsrými en hann naut sín mjög vel sem slíkur. Svo sá ég minnismerki sem sýndi að þetta var gamall kirkjugarður og þar var lögð áhersla að menn sýndu staðnum virðingu. Allir voru velkomnir í garðinn en það fór ekki fram hjá neinum sem sá þetta minnismerki að sýna ætti svæðinu virðingu.

Forseti. Þetta var í miðborg London þar sem fasteignaverð er margfalt það sem það er í Reykjavík, og er það orðið hátt í miðborg Reykjavíkur nú þegar, en þar lætur enginn sér koma það til hugar að grafa burtu þennan gamla kirkjugarð, þó að legsteinarnir séu horfnir, til að byggja meira aftan við húsin. Sá garður var ekki nærri því jafn gamall og kirkjugarðurinn hér, Víkurgarður, og hafði ekki í námunda nærri eins mikið sögulegt mikilvægi fyrir bresku þjóðina eins og sá garður hefur fyrir okkur Íslendinga.